140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það ástand sem núna ríkir er á margan hátt mjög óvanalegt en að tala um gíslatöku í því sambandi er líka fráleitt. Það er auðvitað þannig að minni hlutinn er að reyna að beita sínum áhrifum á það hvernig málin þróast og hvaða mál ná fram að ganga og hvernig niðurstaðan verður í þessum málum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt.

Ég er gamall þingflokksformaður og hef oft staðið í svona samningaviðræðum, bæði undir jól og að vori. Út á hvað ganga þessar viðræður? (Gripið fram í.) Þær ganga út á það að minni hlutinn gerir kröfur um það sem hann telur að þurfi ekki að afgreiða fyrir þinglok. Minni hlutinn (Gripið fram í.) gerir kröfur um það og reynir að hafa áhrif á það hver er niðurstaða einstakra mála. Það er alvanalegt. Þekkjum við það til dæmis ekki fyrir jól að minni hlutinn hverju sinni reyni að hafa áhrif á ýmsa tekjupósta sem ríkisstjórnin hefur lagt fram? Það er alvanalegt og við þekkjum það bæði fyrr og síðar. Svo tala menn um að hér sé þvílík gíslataka að engum málum sé hleypt í gegn en er það þannig? Það liggur bara fyrir í þingskjölum frá þinginu að að minnsta kosti 30 mál hafa verið afgreidd núna í júní. Í gær var til dæmis afgreitt eftir mjög stutta umræðu stórt umdeilt mál, Vaðlaheiðargöngin. Það er því ekki hægt að segja að það hafi verið einhver óbilgirni af hálfu minni hlutans sem hafi komið í veg fyrir að einstök góð mál hafi náð fram að ganga. Við höfum þvert á móti boðið samstarf í þeim efnum en ríkisstjórnin hefur ekki viljað það. Hún hefur sýnt mikinn eintrjáningshátt, sérstaklega varðandi afstöðu sína til veiðigjaldsins, og nú eru menn að tala um að þetta sé spurning um almannahagsmuni eða sérhagsmuni. Eru það virkilega almannahagsmunir að keyra fram mál sem munu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn? Það er búið að sýna fram á að þannig verða áhrifin ef þetta frumvarp nær fram að ganga í þeim búningi sem það er í í dag. Það eru almannahagsmunir að koma í veg fyrir að slíkt frumvarp nái fram að ganga (Forseti hringir.) og það er það sem þetta mál snýst um.