140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:06]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu snúa þessar breytingar einkum og sér í lagi að því að koma til móts við Eftirlitsstofnun EFTA og þær athugasemdir sem hún hefur á starfsemi Íbúðalánasjóðs eftir rannsókn sem fram fór á starfsemi sjóðsins.

Ég hef farið yfir og styð breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem skilar minnihlutaáliti og ég hef rakið það líka að ég sé mjög sammála hv. þingmanni og því sem fram kemur í þessu minnihlutaáliti um að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Við eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að efla hann og styrkja. Ég hef líka rakið mikilvægi sjóðsins, ekki hvað síst hér á góðæristímanum þegar enginn var tilbúinn að fjármagna íbúðarhúsnæði í hinum dreifðu byggðum landsins nema Íbúðalánasjóður. Þess vegna er okkur gríðarlega mikilvægt að efla og styrkja sjóðinn og tryggja jafnframt að hann geti veitt sambærileg úrræði og aðrar fjármálastofnanir.

Það er þess vegna sem ég styð einnig breytingartillögu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar við þetta mál. Hann gerir ráð fyrir því að Íbúðalánasjóður geti boðið lántökum upp á sambærileg úrræði og Landsbankinn hefur boðið sínum viðskiptavinum. Það hefur verið brestur á því að Íbúðalánasjóður hafi getað gert slíkt, og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur reyndar lagt þetta áður fram sem sjálfstætt lagafrumvarp, en úr því að þessi mál eru opin og það er verið að vinna með breytingar á þessum lögum er mjög kjörið að taka þessa breytingartillögu þarna inn. Maður hlýtur að velta því fyrir sér eins og fram hefur komið í umræðunni, í ljósi til að mynda ummæla margra hv. þingmanna Samfylkingarinnar þess efnis að eðlilegt sé að grípa til aðgerða, hvort ekki eigi að gera Íbúðalánasjóði kleift að bjóða upp á sambærilegar aðgerðir til handa skuldsettum heimilum líkt og Landsbankinn gerir, sem er að stórum hluta í eigu ríkissjóðs.

Til að mynda hefur hv. þm. Helgi Hjörvar sagt þetta úr þessum stól sem og hv. þm. Árni Páll Árnason, fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Þeir sögðu báðir við fjölmiðla á sínum tíma að það væri algjört forgangsatriði að Íbúðalánasjóði yrði gert kleift að bjóða upp á sambærilegar lausnir og Landsbankinn gerir.

Það er undarlegt að ríkisstjórn sem hreykir sér á tyllidögum af því að vera ríkisstjórn sem vill koma til móts við skuldsett heimili landsins, ríkisstjórn sem hefur kennt sig við norræna velferð og fleira í þeim dúr, skuli ekki taka þetta fyrir jafnhliða í ljósi ummæla margra hv. þingmanna þegar verið er að gera breytingar á þeim lögum sem snúa að þessum þætti um húsnæðismál. Menn bera því jafnan við að þetta séu kannski að einhverju leyti eðlisólík mál, en er það svo? Nei, svo er ekki. Það er vel hægt að gera þetta og við þekkjum það vel úr öðrum þingnefndum. Ég nefni til að mynda að flest þau frumvörp sem koma frá hæstv. umhverfisráðherra eru með tvö til þrjú alls kostar óskyld atriði saman í einu frumvarpi. Ég nefni frumvarp um utanvegaakstur sem er nú til meðferðar, þar er verið að blanda saman alls konar ólíkum hlutum og maður hlýtur að velta fyrir sér hvernig standi á því að hæstv. ríkisstjórn sem í orði kveðnu vill koma til móts við skuldsett heimili, segir það úr þessum stól, við fjölmiðla og aðra, (Forseti hringir.) skuli síðan ekki nýta tækifærið þegar það gefst og setja inn í breytingartillögur ákvæði þess efnis að Íbúðalánasjóði sé gert kleift (Forseti hringir.) að bjóða upp á sambærilegar lausnir og Landsbankanum.