140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að skemmta skrattanum er ágætt gamalt íslenskt orðtak og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur oft séð tiltekin alþjóðasamtök, Evrópusambandið, í líki þess sem þar um ræðir. Ég tel að með því að tefja afgreiðslu þessa máls séum við að kalla yfir okkur mjög hörð viðbrögð og kæru frá ESA. Það er það sem ég spurði hv. þingmann um, hvort hann hefði kynnt sér hvað er í húfi og hvaða leikur það sé að tefja framgöngu þessa máls nú við 3. umr. þegar menn höfðu lítinn áhuga á að ræða málið bæði við 1. og 2. umr. þess.

Afstaða hv. þm. Eyglóar Harðardóttur kemur mjög vel fram í nefndaráliti hennar núna fyrir 3. umr. og hún leggur til breytingartillögu sem framsögumaður meirihlutaálitsins lýsti eindregnum stuðningi við. Það gerði hæstv. velferðarráðherra líka þannig að það er tekið undir með þeim sérsjónarmiðum og þeirri viðbótartillögu sem Framsóknarflokkurinn hefur haft fram að færa í þessu. Þess vegna skora ég á hv. þingmann að taka nú höndum saman við okkur sem berum þetta mál hér fram frá nefndinni, ljúka umræðunni þannig að við getum snúið okkur að öðrum málum.

Hvað varðar frekari framtíðarsýn og stefnumótun fyrir Íbúðalánasjóð erum við öll sammála um það en ég minni hv. þingmann á, og það kom ítarlega til tals í nefndinni, að nú stendur yfir sérstök rannsókn á Íbúðalánasjóði að frumkvæði Alþingis. Alþingi setti niður sérstaka rannsóknarnefnd og við vorum sammála um það í nefndinni og töldum að þegar niðurstaða hennar liggur fyrir væri auðvitað kominn tími til að taka málið allt upp og horfa til framtíðar á grunni þess sem þar kemur fram.