140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, hv. þingmaður talar um að sá sem hér standi sjái Evrópusambandið í líki skrattans. (Gripið fram í.) Það var einu sinni sú tíð að hv. þingmaður og hv. þingflokkur Vinstri grænna sá Evrópusambandið í öðru ljósi en núna. Það var áður en hv. þingflokkur gekkst á hönd Samfylkingunni í þessu máli og ákvað að selja grundvallarhugsjónamál sitt til þess að komast til valda. Það hefur komið skýrt fram í þingstörfum undanfarin tvö ár að ESA hefur sýnt Íslendingum mun meiri hörku, þetta hefur komið fram í fjölmiðlaumfjöllun, í þingræðum og víðar, ekki hvað síst vegna þess að við Íslendingar erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Það hefur líka komið skýrt fram að ríkisstjórnin virðist sjá það eitt að ganga í Evrópusambandið, hæstv. forsætisráðherra sagði að við ættum ekki að óttast að evran væri að hrynja en ég held að hún sé líka eini forsætisráðherrann í öllum heiminum sem sér ekki hlutina eins og þeir eru í því efni.

Þess vegna höfum við séð fram á það að íslenska ríkisstjórnin hefur í öllum málum hræðst ESA, oft og tíðum að óþörfu. Hvað varðar þetta mál hér hygg ég að því muni ljúka á næstu dögum og ég get glatt hv. þingmann með því að samkvæmt þingsköpum á sá sem hér stendur ekki meiri tíma til að fjalla um þessi mál. Það flokkast samt ekki undir það að skemmta skrattanum að vilja fjalla um framtíð starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég get ekki tekið undir svona ummæli, frú forseti, vegna þess að sá sem hér stendur hefur rakið það í ræðum sínum hversu mikilvægu hlutverki Íbúðalánasjóður hefur gegnt í (Forseti hringir.) útlánastarfsemi sinni, (Gripið fram í.) ekki hvað síst á landsbyggðinni (Gripið fram í.) og þess vegna hef ég (Forseti hringir.) svo mikinn áhuga á að fjalla um þessi mál. En ég get glatt hv. þingmann með því að þetta er mín síðasta ræða um málið.