140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota þann stutta tíma sem ég hef til að fara yfir tvo þætti. Vegna þeirrar umræðu sem var hér í morgun um þau forgangsmál sem ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar og telur að stjórnarandstaðan hafi staðið í vegi fyrir og hefur jafnvel nefnt þetta mál sem dæmi þá vil ég geta þess að við framsóknarmenn höfum ævinlega barist fyrir hagsmunum Íbúðalánasjóðs og munum halda því áfram og teljum að hann gegni veigamiklu hlutverki á húsnæðismarkaði og því beri að viðhalda áfram. Við höfum líka fjallað um að það sé röng stefna að breyta honum í félagslegan sjóð eingöngu. Ég kom aðeins inn á það í minni fyrri ræðu.

Við höfum lagt fram þó nokkuð mörg mál í tengslum við húsnæðismarkaðinn en það sem við höfum verið að gagnrýna nú við 3. umr. í þessu máli er að ríkisstjórnin skuli ekki hafa notað tækifærið þegar hún fjallaði um Íbúðalánasjóð og viðbrögð við áliti ESA. Ég vil líka að hér komi fram að ESA hefur komið fram af mun meiri óbilgirni og hörku í öllum samskiptum á hvaða sviði sem er, hvort sem er á sviði matvælaeftirlits, á sviði fjármálaeftirlits eða hvaða sviði sem það er, vegna aðildarviðræðnanna. Þetta er viðurkennt af öllum sem að þessu koma. Það á auðvitað við um þetta mál líka. Ein leið til að ná eðlilegri samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, væri sú að slíta nú þegar aðildarviðræðunum og það er í höndum núverandi ríkisstjórnar.

Ég nefndi að við framsóknarmenn höfum lagt fram ýmis önnur mál sem varða húsnæðismál og skuldamál heimila eins og verðtryggingu og slíkt. Við höfum til að mynda viljað að stjórnvöld beittu sér fyrir að boðið yrði upp á óverðtryggð húsnæðislán og höfum undrast það við 3. umr. þessa máls, frú forseti, að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa nýtt tækifærið til að koma fram með stefnu sína varðandi það. Við höfum líka fjallað um hvernig bregðast eigi við því sem kemur fram í þessu frumvarpi og nefndaráliti meiri hlutans að til að forðast skuldsetningu þeirra sem eru að kaupa húsnæði í fyrsta sinn eigi fólk um alla tíð einungis að geta tekið 80% lán og eigi þar af leiðandi að eiga fyrir 20%. Þá höfum við sagt: Hvernig á það að gerast? Við höfum lagt fram frumvarp, þ.e. hv. þm. Eygló Harðardóttir, um valfrjálsan sparnað hjá ungu fólki með skattaívilnun til að eiga þann möguleika að eiga þetta fé þegar til þessara hluta kemur. Fjölmargir slíkir hlutir sem ég held að hafi verið nauðsynlegir hafa komið fram í umræðunni og lýsi ég nú eftir stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það hefur líka komið fram í andsvörum, til að mynda milli framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, að mikill ágreiningur hefur verið á milli þessara tveggja stjórnmálaflokka. Það er líka mikilvægt að dýpka umræðuna á þann hátt. Það sem hefur skort á í þessari umræðu er að stjórnarliðar, þ.e. Samfylkingin og Vinstri grænir, hafi komið inn í umræðuna. Við vitum að innan Samfylkingarinnar hefur verið gengið býsna langt í að breyta og jafnvel leggja niður sjóðinn, breyta honum í félagslegan sjóð, breyta honum í þá átt sem hæstv. forsætisráðherra vildi beina húsnæðismálum á sínum tíma þegar hún var félagsmálaráðherra. Því var það að undirlagi Samfylkingarinnar að fyrsta rannsóknin sem átti að fara fram hér eftir hrun var á Íbúðalánasjóði, ekki á öllu hinu fjármálabixinu heldur á Íbúðalánasjóði. Það var ótrúleg forgangsröðun af hendi Samfylkingarinnar, en við komum því þannig fyrir með samkomulagi við meiri hlutann að skoðunin yrði víðtækari og skoðað yrði sérstaklega hvernig bankarnir höfðu áhrif á markaðinn í samspilinu.

Ég sagði í upphafi að ég ætlaði að nefna hérna tvo þætti og nú er tími minn að renna út þannig að ég ætla rétt að hlaupa á því. Í 1. gr. hefur mér þótt sérkennilegt að sjá að ráðherra eigi að skipa formann og varaformann til jafnlengdar embættistíma sínum. Nú höfum við upplifað það, frú forseti, á líðandi kjörtímabili að ráðherrar koma og ráðherrar fara. Þýðir þetta að ráðherra sem situr í tvo mánuði skipar formann og varaformann Íbúðalánasjóðs til tveggja mánaða og svo kemur næsti og skipar þá aftur nýjan formann og varaformann. Eins og kemur fram í umsögnum og útskýringum í greinargerð er það (Forseti hringir.) álit meiri hlutans að mikilvægt sé að pólitísk ítök ráði för.