140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var um margt mjög athyglisverð. En áður en ég fer yfir í þær spurningar sem ég hef til hv. þingmanns langar mig að benda á ósamræmi sem fram hefur komið í umræðunni af hálfu stjórnarliða. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir að þetta mál þurfi að afgreiða fyrir mánaðamót út af einhverjum dagsetningum, en þvert á móti kom fram í andsvari hv. þm. Lúðvíks Geirssonar í gær eða fyrradag að það væri ekkert slíkt inni í þessu máli. Eitthvað er þetta því á reiki. Og ég leyfi mér að fullyrða að þær afleiðingar sem menn, sumir hverjir, hafa talað um að verði ef þetta verði ekki keyrt hér í gegnum þingið séu orðum auknar að einhverju leyti.

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert sem hv. þingmaður fór inn á varðandi skipan ráðherra á stjórnarmönnum, á formanni og varaformanni. Ég veit að hv. þingmaður hefur fylgst töluvert með þeim stjórnsýslubreytingum sem átt hafa sér stað frá því að við tókum bæði sæti hér á þingi. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að stjórnarflokkarnir séu að fara fram með einhvers konar nýja stefnu gagnvart skipan í stjórnir og hvort þetta sé fyrsta skrefið í að færa okkur yfir í það kerfi sem stundum hefur verið kennt við Bandaríkin og er við lýði þar, þ.e. að öllum embættismönnum sé skipt út um leið og ráðherra víkur sæti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji svo vera, hvort hann hafi séð þess stað hér í umræðunni að þetta sé ný stefna hjá ríkisstjórnarflokkunum eða hvort þetta sé einfaldlega bara eitthvað sem datt óvart þarna inn án þess að vera sérstaklega hugsað til enda.

Mér finnst þetta mikilvægt vegna þess að talað hefur verið svo mikið í þessum stól um breytingar á stjórnsýslunni, að bæta og styrkja stjórnsýsluna. Og þetta er mikil breyting að mínu mati sem hefur farið ótrúlega lítið fyrir í umræðunni.