140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá langar mig að víkja að öðru atriði sem er að flestar þær erlendu eftirlitsstofnanir sem fylgst hafa með efnahagsmálum á Íslandi hafa ítrekað í gegnum árin bent á að varhugavert sé að ríkið taki þátt í almennum íbúðalánum í það miklum mæli sem raun ber vitni hér á landi. Þær stofnanir hafa hvatt til þess að starfsemi Íbúðalánasjóðs verði takmörkuð við lán til þeirra sem hafa lágar tekjur eða þurfa af félagslegum ástæðum aðstoð hins opinbera til að leysa húsnæðismál sín. Við höfum meira að segja heilan kafla um þetta í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem talað er um og reifaðar allar þessar athugasemdir, meðal annars frá Efnahagsþróunar- og samvinnustofnuninni og eins Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallaði árið 2005 eftir tafarlausum umbótum á Íbúðalánasjóði þar sem ríkisstyrkt samkeppni hans við bankana græfi undan áhrifamætti peningastefnunnar, yki óþarflega á ójafnvægi í hagkerfinu og ógnaði fjármálalegum stöðugleika. Þetta eru frekar miklar athugasemdir.

Mér finnst einhvern veginn þegar við erum að tala um Íbúðalánasjóð og gera þessar breytingar út af athugasemdum ESA að við séum bara rétt aðeins að reyna að bjarga okkur í staðinn fyrir að horfa á fílinn í stofunni. Hérna er verkefni sem okkur hefur verið margbent á að sé ekki í lagi hjá okkur og það þurfi að fara yfir og skoða. Mér finnst einhvern veginn það hafa kristallast í þessu máli að við höfum í rauninni ekki lært svo mikið af þeim vanda sem við höfum lent í hér á Íslandi. Við horfum ekki á stóra vandamálið, við reynum að krafla aðeins í bakkann til að komast hjá einhverjum óþægilegum athugasemdum frá ESA næstu tvö árin, svo ætlum við að bregðast aftur við. Mér finnst, frú forseti, augljóst að rangt sé farið í þetta, við áttum að skoða málið ofan í kjölinn og bregðast við þessum athugasemdum eftir ítarlega umræðu og skoðanir okkar, þar sem skoðanir okkar allra sem störfum á vettvangi stjórnmálanna kæmu fram um það hvernig við sjáum framtíðarhlutverk sjóðsins. Sú umræða hefur ekki farið fram og mér finnst algjörlega (Forseti hringir.) rangt farið inn í þetta mál.