140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[11:54]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál. Mig langar í upphafi að taka það fram að þar sem ég settist á Alþingi á mánudaginn hef ég ekki haft tækifæri til að fylgjast með eða taka þátt í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað um málið. Ég veit ekki vegna orða hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur hvort ég á að biðja hana að fyrirgefa mér að blanda mér í þessar umræður og lengja þar með tíma þingsins en það eru nokkur atriði sem mig langar til að fara hér yfir.

Eins og fram hefur komið er það vegna athugasemda ESA sem verið er að taka málið hérna upp og fara yfir Íbúðalánasjóð sem er mjög mikilvæg stofnun hér á landi. Ég verð að mörgu leyti að taka undir orð hv. þingmanna Ásmundar Daðasonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar um ESA, að sú stofnun sé að koma mjög hraustlega inn á mörg svið. Þetta segi ég og þekki sem starfandi sveitarstjórnarmaður að öllu jöfnu og hef orðið vör við það þar sem ég sit í mörgum nefndum og ráðum á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambands Íslands að athugasemdum hefur að mörgu leyti rignt yfir okkur.

En það er jákvætt að verið sé að taka á þessu máli í frumvarpinu og ég vil líka taka undir orð þeirra hv. þingmanna sem hafa rætt um það hvort verið sé að bregðast nægilega vel við. Eins og ég sagði í upphafi er Íbúðalánasjóður mjög mikilvægur og ekki síst á því svæði þar sem ég bý og því vil ég sjá vel um mál hans búið til heilla fyrir alla landsmenn.

Ég hef nýtt tímann í að kynna mér málið með því að lesa frumvarpið, nefndarálitin og umsagnir sem hafa komið til nefndarinnar í meðförum hennar og þingsins. Ég hef skautað aðeins yfir þetta eins og ég hef haft tíma til. Það sem ég vil taka fram og finnst jákvætt í því sem þar kemur fram er meðal annars þessi krafa um hæfi stjórnarmanna en tek jafnframt undir orð hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar þegar hann talaði um ráðherrakjörin og fannst jákvætt að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir tók að mörgu leyti undir það og ég held að það sé alveg þess virði að skoða mun betur.

Þá er einnig jákvætt í frumvarpinu að verið er að þrengja skilyrði um leigufélögin. Eins og þeir þekkja sem búa í byggðum landsins hefur Íbúðalánasjóður verið að lána peninga inn í leigufélög sem hafa gengið misjafnlega vel um, ef þannig má að orði komast, og oft hafa byggðarlög staðið uppi með nokkuð stór vandamál hvað það varðar.

Það var mjög jákvætt að heyra hæstv. velferðarráðherra í gær taka undir breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að meiri hlutinn ætlaði að gera hana að sinni tillögu. Ég held að það sé ekki nema til bóta fyrir frumvarpið.

Þeir þingmenn sem hér hafa talað í um sex klukkustundir, ef ég man rétt, hafa mikið rætt og tekist á um þau samkeppnissjónarmið sem ESA er náttúrlega að gera athugasemdir við, að sjóðurinn starfi á samkeppnismarkaði, og hægt er að taka undir það að mörgu leyti. Sjóðurinn á margar íbúðir og vandinn er stór og mikill eftir því sem mér skilst. Þá verðum við líka að hafa það í huga að byggðir hringinn í kringum landið hafa ekki þannig markað að viðskiptabankarnir hafi hreinlega viljað líta til þess að lána til fasteignakaupa úti um landið. Að því leytinu til hefur Íbúðalánasjóður gegnt lykilhlutverki og er mjög mikilvægur.

Á því svæði þar sem ég bý er að eiga sér stað atvinnuuppbygging sem er mjög jákvætt, og svo því sé haldið til haga hefur íbúum á því svæði fækkað síðustu 20 árin um 45%. Nú sjáum við teikn á lofti um frekari atvinnuuppbyggingu og henni fylgja óskir og beiðni um að þar verði reistar íbúðir en við stöndum frammi fyrir íbúðaskorti. Hvað gerist þá? Hús fara að ganga kaupum og sölum og fasteignaverð hefur tvöfaldast, sem er mjög jákvætt, þó að það sé langt í land miðað við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu og á stærri þéttbýlisstöðum. Á því húsnæði hefur hvílt lán frá Íbúðalánasjóði. Þá hefur komið fram ákveðin tortryggni þar og Íbúðalánasjóður gerir sem sagt athugasemdir við hækkun á markaðsverði og söluverði og hefur verið að eyða peningum í það að senda fasteignasala til að taka út eignirnar, mjög trúlega til að tryggja að ekki séu brögð í tafli.

Þetta finnst okkur mjög neikvætt vegna þess að okkur er það mjög mikilvægt að byggðin rísi þarna og við köllum eftir því að lánastofnanir og þar á meðal Íbúðalánasjóður fylgi okkur eftir í því. Þá hafa sveitarfélög sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði í svokölluðu félagslegu húsnæði og öðru átt á þessum tíma og um langan tíma í miklum erfiðleikum með það að fá skilning hjá Íbúðalánasjóði varðandi leiðréttingu þeirra lána. Svo ég nefni eitt sveitarfélag, Bolungarvík, sem þurfti að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og einn hlutinn af því var að Íbúðalánasjóður mundi fella niður hluta af lánum. Það hefur ekki gengið eftir. Þetta er mjög alvarlegt mál. Ég veit um fleiri sveitarfélög sem hafa verið að leita leiða en það hefur ekki gengið eftir.

Eins og ég sagði í upphafi renndi ég yfir umsagnir um frumvarpið sem komu til nefndarinnar. Í því ljósi að við ræðum um það að sjóðurinn sé farinn að starfa á samkeppnismarkaði varðandi leiguhúsnæði og kaup og sölu langar mig að fara aðeins yfir 4. gr. frumvarpsins þar sem segir í c-lið:

„Á eftir 8. tölulið kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Að eiga og reka leigufélag með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungarsölu … “

Í nefndarálitinu segir í kaflanum Leigufélag og lán til leigufélaga að með frumvarpinu sé lögð til grundvallarbreyting á starfsemi Íbúðalánasjóðs þess efnis að eitt af hlutverkum hans verði að eiga og reka leigufélag með eignir sem sjóðurinn hefur eignast með fullnustugerðum. Nefndarmenn í velferðarnefnd eru staddir hér í salnum og því velti ég fyrir mér umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem það gerir athugasemdir við þessa 4. gr. og segir að það orðalag sem ég fór hér með útiloki „að sjóðurinn geti leigt út húsnæði sem hann hefur eignast með öðrum hætti, t.d. með makaskiptum eða frjálsum samningum við skuldara, eins og virðist mögulega geta gerst“.

Nú spyr sá sem ekki veit: Hefur Íbúðalánasjóður eignast allar þær eignir sem hann á með nauðungarsölu? Er sá möguleiki fyrir hendi? Nú verð ég bara að viðurkenna fáfræði mína, ég þekki það ekki. Er þá Íbúðalánasjóður, eins og komið hefur fram í þessu, að fara að reka svona nokkurs konar fasteignasölu eða er þetta möguleiki sem hefur verið skoðaður? Ég velti því upp, hvort þetta liðkar eitthvað til á þessum markaði, ef til dæmis stóru íbúðarhúsnæði væri hægt að skipta upp. Ég velti fyrir mér hvort nefndin hafi rætt þessa umsögn sambandsins og þá um hvað umræðurnar hafi snúist eða hvort ég er hreinlega að misskilja málið.

Í umsögn sambandsins er jafnframt talað um 12. og 13. gr. — í nefndarálitinu er talað um að fella út greinar um að ráðuneytið haldi skrá yfir félög og félagasamtök — þar sem fram kemur, með leyfi forseta, að æskilegt væri „að sú skylda hvíli áfram á ráðuneytinu að halda skrá yfir félög og félagasamtök og staðfesta samþykktir til leiguíbúðafélaga og félagasamtaka sem starfa samkvæmt VIII. kafla laganna“.

Í umsögn sambandsins kemur fram að það sé mjög brýnt að þessi skrá sé til. Og mér þætti áhugavert að heyra það, ef nefndarmenn eru í salnum og hafa tök á að velta því upp með mér, hvers vegna í nefndinni og út frá umræðum í nefndinni hafi verið tekin ákvörðun um að þetta væri ekki nauðsynlegt. Ég teldi það skynsamlegt — ekki í ljósi þess sem ég sagði hér í upphafi að mér þætti það mjög jákvætt varðandi frumvarpið að búið væri að þrengja skilyrðin varðandi leigufélögin — að til væri skrá um það hvaða félög væru starfandi leiguíbúðafélög og sem störfuðu samkvæmt þessum VIII. kafla laganna.

Þá langar mig að lokum að koma aðeins inn á tillögu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar þar sem hann leggur fram breytingartillögu sem snýr beint að skuldavanda fólks. Við sem erum hér þekkjum náttúrlega mjög vel þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu að fólki finnst alls ekki nógu langt gengið í þeim aðgerðum. Íbúðalánasjóður hefur verið þar undanskilinn hvað það varðar að fólk hafi fengið leiðréttingu á sínum lánum. Ég átta mig jafnframt á því að þarna er um stórar fjárhæðir að ræða. En það er líka mjög merkilegt eins og fram hefur komið að ríkisbankinn, Landsbankinn, hefur komið til móts við viðskiptamenn sína en Íbúðalánasjóður hefur ekki haft tök á því og þessi umræða er mjög hávær í þjóðfélaginu. Ég teldi það mjög skynsamlega leið að fara þessa svokölluðu landsbankaleið og tek heils hugar undir breytingartillögu hv. þingmanns.

Svona rétt í lokin langar mig að taka undir það sem þingmenn hafa rætt og fara yfir það sem var nefnt hér í upphafi. Mér finnst það jákvætt að verið er að bregðast við þessum tilmælum ESA. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir að svara þurfi þessu fyrir ákveðin tímamörk og málið verði síðan tekið upp aftur. Ég neita því ekki og það er svona mín sýn — en ég tek það fram sem ég sagði hér í upphafi að ég er náttúrlega að koma inn í þessa umræðu á þessu stigi — að jákvætt hefði verið að sjá þetta tekið í heild sinni. Ég ætla líka að ítreka það sem ég sagði í upphafi, ég hef alla vega upplifað það á sveitarstjórnarstiginu, að þessum bréfum ESA hefur rignt yfir stjórnkerfið og við erum að bregðast við á mörgum sviðum og ég tel að við gerum það vel og vandlega. Það eru það miklir hagsmunir í húfi varðandi Íbúðalánasjóð og svo margt annað.