140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:12]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir svör hennar og orð hennar í upphafi en maður er kannski dálítið hörundsár ef svo má segja þegar maður kemur nýr inn í umræðu og er að reyna að leggja sitt til málanna.

Ég veit ekki hvort ég hef misskilið þetta um skipun í stjórnina. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Hv. þingmaður sagði að þær væru mismunandi, skoðanir okkar sjálfstæðismanna í þessu máli. Ég endurtek bara það sem ég sagði í upphafi að Íbúðalánasjóður er mjög mikilvægur byggðum landsins, en ég velti fyrir mér því sem hefur verið rætt um samkeppnissjónarmiðin. Þau eru náttúrlega í fullu gildi á höfuðborgarsvæðinu og eins og ég skil málið er mjög stór hluti íbúða Íbúðalánasjóðs á höfuðborgarsvæðinu þar sem markaðslögmálin eru í fullu gildi. Þá veltir maður fyrir sér því fyrirkomulagi til framtíðar. Ég tel jafnframt mjög mikilvægt að Íbúðalánasjóður sé til staðar til að tryggja það að landsbyggðin hafi aðgang að lánsfjármagni.

Ég nefndi áðan athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mér þætti vænt um ef hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gæti farið þessar ábendingar um 4. gr. og 12. og 13. gr.