140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:16]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar svör. Það vakti athygli mína í máli hennar þegar hún fór orðum um að Íbúðalánasjóður væri stór hluti af efnahagskerfi landsins og bankakerfinu. Ég get tekið undir það og þrátt fyrir að búa þar sem ég bý þá velti ég því fyrir mér hvort það sé kannski ekki einmitt eitt af verkefnum okkar; að draga úr þeirri starfsemi sem sérstaklega snýr að höfuðborgarsvæðinu þar sem markaðslögmálin geta gilt en sjóðurinn einblíni á að styðja við þær byggðir landsins þar sem viðskiptabankarnir hafa ekki viljað koma inn. Það hefur verið til mikils vanda fyrir okkur sem búa úti um landið, bæði þá sem eru í atvinnustarfsemi og búa þar.

Ég hallast að því og hef verið þeirrar skoðunar hvort ekki megi setja spurningarmerki við pólitískar ráðningar yfir höfuð. Ég hef að vissu leyti skilning á því sjónarmiði að stjórn sjóðsins og stjórnvöld þurfi að vera nátengd, en þetta varðar kannski þá stefnumörkun sem ég tel að þurfi að fara í fyrir sjóðinn í heild sinni. Eins og ég sagði í upphafi tel ég að erindi ESA hefði veitt kjörið tækifæri til þess að taka það alla leið, ekki að taka málið upp aftur, heldur búa sjóðnum skipulag til framtíðar sem allir gætu vel við unað.