140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:20]
Horfa

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurn hans.

Ég held að það væri mjög áhugavert að fá það yfirlit sem hv. þingmaður talar um, um skilvísi lántakenda eftir búsetu. Eins og ég kom að minnsta kosti þrisvar sinnum inn á í ræðu minni er ég nokkuð viss um að Íbúðalánasjóður er stærsti lánveitandi til byggða landsins og það yrði því mjög áhugavert að sjá hvernig þetta skiptist.

Af því að við virðumst deila þeirri skoðun að Íbúðalánasjóður sé okkur svo mikilvægur langar mig að fara aðeins aftur og ræða það sem ég kom inn á varðandi sveitarfélögin og aðkomu Íbúðalánasjóðs. Nú þekki ég það frá mínu fjórðungssvæði, Vestfjörðum, hvernig sveitarfélögum hefur gengið þar í viðskiptum varðandi þeirra vanda. Auðvitað skýrist að stórum hluta sá heildarvandi sem Íbúðalánasjóður er í af því að ekki hefur verið brugðist við. En af því að hv. þingmaður kemur úr öðru sveitarfélagaumdæmi en sú sem hér stendur — þekkir hann til slíks? Þekkir hann til þess hvernig þetta hefur verið varðandi sveitarfélögin á hans svæði? Eins og ég sagði áður þá hefur Íbúðalánasjóður, síðast þegar ég vissi um sveitarfélagið sem ég nefndi, Bolungarvík, ekki staðið við þær skuldbindingar sem hann gekkst undir í fjárhagslegri endurskipulagningu þess sveitarfélags.