140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:27]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrst um tímasetningu þessa frumvarps og þá pressu sem er á að afgreiða það frá þinginu. Það er auðvitað rétt að hafa í huga að athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA við fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs bárust hingað 18. júlí á síðasta ári. Ég er þeirrar skoðunar að þær breytingar sem hér er verið að gera á fyrirkomulagi sjóðsins séu ekki það viðamiklar eða flóknar að ekki hefði mátt vinna þetta hraðar þannig að það væri fyrr komið til afgreiðslu. En við skulum vona að hér greiðist úr störfum þingsins vel og ágætlega þannig að hægt sé að klára þetta mál sem fyrst.

Þá sný ég mér að efni frumvarpsins og þeirri stöðu sem upp er komin en Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert þá athugasemd að starfsemi Íbúðalánasjóðs sé of víðtæk og það sé ekki nægjanlegur rökstuðningur af hálfu íslenska ríkisins fyrir þessari starfsemi að óbreyttu þannig að hún falli undir þær undanþágur sem gera þarf fyrir slíkri ríkisaðstoð sem felst í þessum sjóði.

Ég vil þó byrja á því sem ég tel að sé til bóta, en það snýr að stjórnarmönnunum. Ég er sammála þeirri hugsun að það skipti máli þegar um er að ræða pólitískar stofnanir að saman fari áhrif og ábyrgð. Mér hefur alltaf fundist það frekar vond staða sem getur komið upp þegar ráðherra ákveður að skipa stjórnarmenn inn í tiltekna mikilvæga ríkisstofnun og það er tekin ákvörðun um að gera þetta jafnvel á allra síðustu dögum ráðherrans í embætti og fyrir liggja kosningar. Þá getur sú staða komið upp að þegar nýr ráðherra tekur við málaflokknum séu þar á fleti fyrir í stjórn í mikilvægri stofnun einstaklingar sem koma úr öðrum stjórnmálaflokkum eða deila ekki sýn ráðherrans á það hvernig skuli reka stofnunina o.s.frv. Það getur valdið mikilli spennu og um leið dregið úr pólitískri ábyrgð viðkomandi ráðherra. Ég tel því að sú breyting sem lögð er til í 1. gr. þessa frumvarps og snýr að 7. gr. laganna um húsnæðismál sé spor í rétta átt, þ.e. að takmarka tíma manna við þann tíma sem ráðherrann situr eða við kjörtímabilið sem að öllu jöfnu er fjögur ár. En það er til umhugsunar fyrir okkur hvort það þurfi ekki að hafa það þannig í svona lykilstofnunum að þeir menn sem ráðherra setur til verka fylgi ráðherranum, að formaður stjórnar og varaformaður séu skipaðir til jafnlengdar ráðherrasetunni. Þá kemur ekki til þess ef ráðherra vill setja sína trúnaðarmenn til starfa að það þurfi að fara í harkalegar aðgerðir til að setja menn út úr slíkum stjórnum með tilheyrandi vandamálum.

Hitt sem ég vil gera að umtalsefni er staða þessa mikla sjóðs í efnahagsstarfsemi okkar. Það skiptir gríðarlega miklu að sú stefna sem liggur til grundvallar útlánum sjóðsins sé í góðu samræmi við efnahagsstefnu ríkisstjórnar á hverjum tíma og ekki síður — og er jafnvel mikilvægara — við peningamálastefnuna. Það verður að segjast eins og er að sú ákvörðun sem tekin var á sínum tíma um að gefa möguleika á því að hækka lánshlutfallið hjá Íbúðalánasjóði upp í allt að 90% var ekki heppileg og ekki til þess fallin að styðja við stjórn peningamála eða styðja við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þessi ákvörðun, þó að hún hafi ekki ein og sér valdið fasteignabólunni sem hér varð, ýtti í það minnsta undir hana. Þegar horft er til baka hefðu viðbrögð Íbúðalánasjóðs á þessum tíma frekar átt að vera þau að draga úr lánshlutföllum, takmarka framboð á lánsfé, vegna þess að það var augljóst og á það var reyndar bent í umræðunni á þeim tíma að húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hækkaði of hratt og of mikið. Það var ástæða til að hafa áhyggjur af því að það væri bólumyndun á ferðinni. Það kom fram hjá Seðlabankanum að hann hefði áhyggjur af þessum hækkunum á húsnæðisliðnum og margir sem tjáðu sig um málið lýstu yfir áhyggjum sínum af þessu. Ég tel að sú ákvörðun að auka lánshlutfallið hafi ekki verið gæfurík.

Það leiðir hugann að því hvernig við eigum að hafa samspilið á milli Íbúðalánasjóðs og þessara hluta. Í frumvarpinu er verið að leggja það upp að ráðherra geti tekið sjálfstæða ákvörðun um að lækka ákveðin hlutföll til þess að draga úr lánveitingunum ef honum sýnist svo, með tilliti til helstu þjóðhagsstærða. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, þó að menn gangi frá þessu frumvarpi núna, að skoða það jafnvel betur og að menn setjist strax yfir það hvernig hægt er að koma því kirfilega og örugglega fyrir að þessir hlutir séu í takt. Þetta eru það stórar stærðir sem við erum að ræða um að þær geta sett peningamálastefnuna svolítið á hliðina ef ekki er samræmi þarna á milli.

Ég hef ekki tillögu um hvort hægt sé að binda það inn í reglur með öðrum hætti en reynt er að gera hér og rætt er um í athugasemdum við frumvarpið. En þetta lýtur um leið að þeirri spurningu sem hér hefur oft verið rædd um samhengi ríkisfjármálanna og peningamálastefnunnar og hvort þörf sé á að móta ríkisfjármálareglu sem er sett fram í samhengi við peningamálastefnu Seðlabankans.

Þær breytingar sem kannski skipta mestu máli í þessu og snúa að athugasemdum EFTA eru kynntar til sögunnar í 8. gr. frumvarpsins og taka til 19. gr. þeirra laga sem ætlunin er að gera breytingar á. Þarna er lagt til að lækka lánshlutföllin. Það er reyndar hárrétt sem bent hefur verið á og er bent á í umfjöllun hér að í sjálfu sér var 80% markinu ekki breytt en það var opnað inn í 90% lánveitingar. Hér er verið að styrkja það að ekki sé farið hærra en 80%.

Það er til umhugsunar, virðulegi forseti, hvort það sé skynsamlegt að hafa fyrirkomulag okkar í húsnæðismálum þannig að skuldsetningin sé þó þetta mikil, þ.e. 80%, af því að svo er töluvert um að menn reyni jafnvel að fá frekari lán frá öðrum aðilum til að kaupa húsnæði. Hér hefur töluvert verið rætt um að menn vilji gjarnan auka hlut óverðtryggðra lána. Ég fullyrði að það getur haft heilmikinn kost í för með sér, sérstaklega fyrir Seðlabankann. Það þýðir að vaxtastýritæki hans bíta hraðar og fastar en það þýðir einnig að lánshlutfallið verður að vera lægra þegar upp er staðið. Sá sem er með breytilega stýrivexti á húsnæðisláni sínu þolir minni skuldsetningu en sá sem er með verðtryggða vexti. Með öðrum orðum, ef við horfum á hinn félagslega hluta málsins sem snýr að því að við viljum að það séu ekki bara þeir sem hafa háar tekjur sem geti keypt sér húsnæði, getur verið hættulegt að ýta þeim sem þurfa að taka hlutfallslega há lán vegna íbúðarhúsnæðis í að taka óverðtryggð lán. Á þetta hefur reyndar verið bent í umræðum öðru hverju, en því miður finnst mér umræðan um verðtrygginguna undanfarið hafa verið nokkuð öfgakennd og verðtryggingunni kennt um allt sem aflaga hefur farið. Það er ekki alveg sanngjarnt. Hún getur verið mikilvæg og gagnleg fyrir þá sem hafa lágar tekjur og þurfa að taka tiltölulega og hlutfallslega hátt íbúðarlán. Hugmyndir um að banna verðtryggð lán og skylda alla til þess að taka óverðtryggð lán — ég held að það mundi gjörbreyta öllum þessum málum og hvernig við komum þeim fyrir.

Síðan er hin reglan sem er lagt til að verði lögfest sem er einnig í 8. gr., hún snýr að því að Íbúðalánasjóður muni ekki lána til fasteignakaupa þar sem um er að ræða fasteignir þar sem fasteignamat er hærra en 50 milljónir og yfir. Þetta er í sjálfu sér mjög skiljanlegt ákvæði í ljósi þess að við erum að reyna að skerpa á hinu félagslega hlutverki sjóðsins. Það er þó eitt við þessa reglu sem ég hef smávegis áhyggjur af. Þegar við setjum reglu á hinu háa Alþingi kann tilgangur okkar að vera, eins og í þessu tilfelli, að skerpa á hinum félagslega þætti sjóðsins. Hún getur samt sem áður haft aðrar afleiðingar. Það er í það minnsta rétt fyrir okkur að hugsa um hvaða áhrif þetta hefur á virði fasteigna. Eftir því sem fasteignamatið nálgast 50 milljónir er munur á því ef menn kaupa sér fasteign sem kostar 49 milljónir og geta fengið lán hjá Íbúðalánasjóði eða fasteign sem kostar 51 milljón og fá ekkert lán. Þetta getur skekkt verðmyndun á markaði, gert stöðuna svolítið undarlega og getur ýtt undir það að það verði alls konar brögðum beitt, ég ætla ekki að segja hvernig brögðum. Þetta getur ýtt undir að óeðlileg viðskipti verði einmitt á þessu verðbili. Hvernig það gerist hef ég ekki hugmynd um og ætla ekki að láta mig dreyma um hvernig það er gert en það er oft eðli markaðanna að menn leita sér að leiðum til þess að komast fram hjá hindrunum eins og þeim sem þarna eru settar upp. Ég er ekki að mæla gegn því að þessi regla sé sett en ég vil bara að menn hafi í huga að hún getur haft afleiðingar, nákvæmlega hverjar treysti ég mér ekki til að segja. Það er augljóst að þessi regla mun hafa áhrif á fasteignir á þessu verðbili í fasteignamatinu.

Hvað varðar lögsöguna yfir þessu máli öllu af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA kemst ég ekki hjá því að velta einu máli upp. Það hlýtur að vera á forræði hvers ríkis að taka pólitíska afstöðu til þess hvernig menn vilja haga í grunninn íbúðamarkaði sínum. Það getur til dæmis verið tekin sú afstaða að segja: Við viljum að sem flestir eigi sitt húsnæði. Svo kann að vera önnur afstaða að segja: Við viljum hafa sem mest af leiguhúsnæði. Svo vilja menn hafa eitthvert bland af þessu o.s.frv.

Við höfum fylgt þeirri stefnumótun á Íslandi á undanförnum árum og áratugum, og um hana hefur verið nokkuð góð þverpólitísk sátt, að sem flestir eigi þess kost að eignast sitt húsnæði. Við höfum talið að í því væru fólgin heilmikil verðmæti fyrir samfélagið. Menn færu öðruvísi með eignir sínar, það hefði áhrif til þess að menn færu betur með þær og það væri meiri ábyrgð og festa í samfélaginu þegar það væri. Vissulega er það engin trygging fyrir slíku og það getur orðið bólumyndun, eins og gerðist á árunum fyrir hrun, og þessir hlutir geta allir saman farið út í öfgar, við erum ekki fyrsta þjóðin sem lendir í því. En þetta hefur verið stefnan hér.

Reyndar hafa hv. þingmenn eins og Lúðvík Geirsson beint augum manna að stöðu þeirra sem eru á leigumarkaði, þeirri mismunun sem gjarnan er beitt og hefur verið beitt gagnvart þeim sem eiga húsnæði sjálfir, og þeirra sem eru á leigumarkaði. Það er sjálfsagt að menn hafi augun mjög opin fyrir því. En þetta hefur verið stefnan, að gera sem flestum kleift að eiga sitt húsnæði. Eitt er því hinn félagslegi þáttur málsins sem snýr að Íbúðalánasjóði og annað er síðan þessi pólitíska stefnumótun. Ég velti því fyrir mér hversu langt Eftirlitsstofnunin getur seilst í því að hafa bein áhrif á þá stefnumótun, þ.e. að Íbúðalánasjóði verði ekki sniðinn það þröngur stakkur að hann geti einungis veitt lán þar sem menn vegna félagsstöðu sinnar geta ekki keypt sér húsnæði, að hlutverk hans verði það þröngt skilgreint að það hafi veruleg áhrif á þá pólitísku stefnumótun sem ég var að lýsa hér, virðulegi forseti.