140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Hann fór vítt og breitt yfir þessi mál, yfir húsnæðislánakerfið, verðtrygginguna, verðtryggð húsnæðislán, afnám verðtryggingar og fleira í þeim dúr.

Í áliti minni hluta velferðarnefndar, hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, er mikilvægi Íbúðalánasjóðs rakið og þau tilmæli lögð fram að hann gegni áfram lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði. Þar er einnig lögð fram breytingartillaga frá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem orðast svo, með leyfi forseta:

„Efnismálsliður c-liðar 4. gr. orðist svo: Að eiga leigufélag með íbúðarhúsnæði sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið á nauðungarsölu, samanber lög um nauðungarsölu, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur þar sem meðal annars skal kveðið á um sjálfstæði stjórnar leigufélags gagnvart stjórn Íbúðalánasjóðs og um rekstrarlegan og bókhaldslegan aðskilnað.“

Það er sem sagt kveðið á um sérstakan aðskilnað þessa leigufélags frá Íbúðalánasjóði. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort honum hugnist þessi breytingartillaga, hvort hann styðji hana. Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í breytingartillögu frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, en markmið hennar er að tryggja að Íbúðalánasjóður geti boðið lántökum upp á sambærileg úrræði og Landsbankinn hefur boðið viðskiptavinum sínum og kallað það skuldalækkun Landsbankans. Mig langaði sem sagt að forvitnast hjá hv. þingmanni hvort hann styddi þessar tvær breytingartillögur eða hvort honum hugnist þær, þ.e. breytingartillaga hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og breytingartillaga hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar við þetta mál.