140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lýsti kannski ekki yfir beinum stuðningi við breytingartillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur en mig langar að hvetja hann til að setja sig betur inn í þá breytingartillögu, ég held að hún sé góðra gjalda verð og mikilvæg.

Í greinargerð segir, með leyfi frú forseta:

„Minni hlutinn leggur á það mikla áherslu að leigufélag það sem lagt er til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að reka og eiga, verði algerlega aðskilið frá þeirri starfsemi sjóðsins sem lýtur að lánveitingum. Minni hlutinn telur að mikil hætta sé á hagsmunaárekstrum þar sem Íbúðalánasjóður verður í beinni samkeppni við leigu- og húsnæðissamvinnufélög á markaði sem fá lán hjá sjóðnum. Ljóst er að samkeppnisstaða slíkra félaga er afar bág gagnvart félagi í eigu ríkisins og ljóst að hún verður enn verri ef ekki er tryggður fullkominn stjórnunar- og rekstrarlegur aðskilnaður.“

Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér þessa tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur því að ég held að hún sé mikilvæg fyrir þetta mál.

Það hefur komið fram hér í umræðum að deildar meiningar séu jafnvel innan flokks hv. þingmanns, Sjálfstæðisflokksins, um framtíð Íbúðalánasjóðs. Afstaða minni hluta, hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, er mjög skýr í þessu máli, það er að Íbúðalánasjóður gegni algjöru lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði og eigi að horfa til þess að sjóðurinn haldi áfram þeirri stöðu sinni. Hins vegar hafa komið fram hjá félögum hv. þingmanns skiptar skoðanir varðandi framtíð sjóðsins. Í ræðum hafa sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sagt að heppilegast væri að selja sjóðinn eða einkavæða hann eða losa sig við hann. Aðrir, líkt og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, hafa talað um mikilvægi þess að efla sjóðinn á þeim grunni sem hann er byggður.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvorum hópnum hann tilheyri í þessu efni. Hvernig sér hv. þingmaður framtíð Íbúðalánasjóðs fyrir sér á (Forseti hringir.) næstu árum og áratugum?