140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:51]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem fram kom í ágætri ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar hér á undan. Ég vil árétta það sem hann nefndi, meðal annars að hér væri verið að bregðast við ákveðnum athugasemdum um lykilatriði varðandi félagslegan þátt Íbúðalánasjóðs sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett fram. Ég skildi orð þingmannsins á þann veg að eðlilegt væri að menn gerðu það á yfirvegaðan hátt og stigju eitt skref í einu í þeim efnum. Ef við erum sammála um það atriði þykir mér það mikilsvert vegna þess að ég hef heyrt mjög ítrekað í umræðunni hér undanfarna sólarhringa að sumir hafa talað fyrir því, og þar á meðal margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að hér væri um að ræða skref sem skipti engu máli og við ættum frekar að fara í einhverja heildaruppstokkun og breytingar á Íbúðalánasjóði.

Menn hafa talað um málið á mjög víðu sviði, allt frá því að nánast eigi að leggja Íbúðalánasjóð niður, jafnvel alfarið, yfir í það að hann eigi að vera til í einhverri mynd og jafnvel í þannig mynd að hann sinni eingöngu landsbyggðinni, og höfuðborgarsvæðið og einhver rammi í kringum það eigi þá að vera á frjálsum markaði gagnvart húsnæðislánum. Það væri nú ástæða til að heyra viðhorf hv. þm. Illuga Gunnarssonar til þessara þátta, hvort ég skilji afstöðu hans með réttum hætti í þessum efnum.

Ég vil árétta tímarammann í þessu máli, það hefur nefnilega komið fram í umræðunni að ekkert liggi á. Það liggur á að svara þessu erindi sem hefur bráðum í heilt ár legið á borði stjórnvalda. Það var upplýst á fundi velferðarnefndar fyrir nokkrum sólarhringum að fulltrúar Eftirlitsstofnunarinnar, sem voru hér á fundi með fulltrúum sjóðsins og ráðuneytisins, bíða eftir þessari afgreiðslu héðan frá Alþingi. (Forseti hringir.) Að öðrum kosti munum við eiga von á mjög hörðum viðbrögðum Eftirlitsstofnunarinnar síðar á þessu sumri.