140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var illa gert af hv. þingmanni að vera að nudda mér upp úr pólitískri fortíð minni. Ég veit að hann þekkir hana, ég var í Alþýðubandalaginu þegar ég var barn. En svo auðvitað þegar ég var orðinn fullorðinn og hafði þroskast eilítið þá rann það upp fyrir mér hvers lags heljarinnar óskapavitleysa það var allt saman, sú vegferð. Ég er ósköp feginn því hvernig til tókst með það að hafa komist út. (JónG: Þroskaðist.) En ég vil benda hv. þingmanni á það að það er enn möguleiki fyrir hann að losna úr þeirri ánauð sem hann hefur sjálfur kosið sér, ég get veitt honum alla þá aðstoð sem hann vill hvað það varðar.

Hvað varðar Íbúðalánasjóð finnst mér takmörk fyrir því hvaða kröfur er hægt að gera til okkar Íslendinga í sambandi við það að breyta fyrirkomulaginu. Ég lít svo á að sú stefna að vilja að sem flestir geti eignast húsnæði sé ekki bara eitthvert markaðslegt fyrirbæri, það lýtur ekki bara lögmálum framboðs og eftirspurnar. Það er meira undir eins og ég sagði. Mismunandi þjóðfélagsgerð fylgir því hvort menn eiga húsnæði sitt almennt eða hvort menn leigja það. Þetta þekkja menn, menn þekkja það til dæmis í litlum samfélögum að þar sem meira er um leiguhúsnæði er umgengnin oft öðruvísi. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sem leigja en það fylgir því önnur hugsun þegar menn hafa eignast húsnæði og horfa til langs tíma frekar en þar sem menn horfa til skamms tíma. Það hefur áhrif.

Menn þekkja þetta líka úr breskri pólitík. Margrét Thatcher, sem þá var forsætisráðherra, var með ákveðna aðgerð til að auka hlutfall þeirra sem áttu íbúðir sínar, af því að menn telja að það skipti máli í hinu stóra samhengi. Þess vegna er ég ósáttur við ef sníða á okkur Íslendingum of þröngan stakk hvað þetta varðar. Ég tel að verið sé að þrengja að okkur í málum sem við eigum að hafa sjálfsákvörðunarrétt yfir. Ef við teljum mikilvægt fyrir okkur að skipa þessum málum með þeim hætti að hafa (Forseti hringir.) þessa félagslegu aðstoð vítt skilgreinda tel ég að við eigum að fá að hafa það þannig. Ég tel að það sé okkar réttur.