140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér er til 3. umr. lét í upphafi ekki mjög mikið yfir sér og vakti kannski ekki athygli þingmanna mikið umfram það sem var hjá þeim nefndarmönnum sem um það hafa fjallað. En þær umræður sem átt hafa sér stað um málið síðan það kom hér fyrst fram hafa allar verið á þann veg að mönnum hefur orðið betur ljóst hvert mikilvægi málsins er, hversu í raun og veru mikla hagsmuni er verið að fjalla um þegar þetta frumvarp er tekið til afgreiðslu. Á sama hátt hafa komið skýrar fram ýmis álitamál sem liggja fyrir þegar þetta mál er skoðað.

Eins og hv. þingmenn þekkja er frumvarpið fyrst og fremst flutt undir þeim formerkjum að bregðast við niðurstöðum frá Eftirlitsstofnun EFTA sem tók ákvörðun í málefnum Íbúðalánasjóðs 18. júlí 2011 þar sem gerðar eru athugasemdir sem meðal annars árétta að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í ýmsu formi. Samkvæmt því regluverki sem gildir á hinu Evrópska efnahagssvæði og á meðal annars við um þetta svið er slík ríkisaðstoð bundin ákveðnum og tilteknum skilyrðum. Þannig að ég komi að því strax þá er auðvitað stærsta álitamálið sem blasir við þegar þetta mál er skoðað hvort nægilega sé komið til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við fyrirkomulag þessara mála hér á landi.

Í greinargerð með frumvarpinu er rakið hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess að ríkisaðstoð sé heimil, af því að það er litið á ríkisaðstoð sem undanþágu sem er háð tilteknum skilyrðum til þess að hún sé heimil. Það er greint á bls. 7 í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Skilyrði fyrir beitingu undanþágu 2. mgr. 59. gr. samningsins eru að í fyrsta lagi þarf ríkisaðstoðin að vera endurgjald fyrir þjónustu sem veitt er í almannaþágu. Í öðru lagi er gerð krafa um að viðkomandi aðila sé sérstaklega falið að veita nánar skilgreinda þjónustu í þágu almennings. Í þriðja lagi er einungis heimilt að veita aðstoð sem er nauðsynleg og ekki fram úr hófi miðað við þá skilgreindu þjónustu sem ætlunin er að veita. Í fjórða lagi má ríkisaðstoð ekki fela í sér röskun á markaði að því marki að hún skaði hagsmuni samningsaðila á Evrópska efnahagssvæðinu.“

Auðvitað er hér um almennt orðalag að ræða en ég og ýmsir umsagnaraðilar og ýmsir hv. þingmenn sem hafa tjáð sig í þessari umræðu höfum að sjálfsögðu velt því upp hvort með þeim takmörkunum sem lúta að starfsemi Íbúðalánasjóðs og felast í þessu frumvarpi sé nægilega komið til móts við þessar athugasemdir. Ég hygg að svo sé ekki og mér finnst að í ummælum þeirra sem standa að þessu máli felist ákveðin viðurkenning á því, þegar talað er um að kalla eigi eftir endurskoðun innan tveggja ára á þessu fyrirkomulagi. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær að gefa sér örlítið meiri tíma við lagasetninguna núna, gefa sér meiri tíma í lagasetningarferlinu til þess að ganga þannig frá málum að það þurfi ekki að fara í endurskoðun innan fárra missira.

Hér eru settar ákveðnar takmarkanir á útlánaheimildum Íbúðalánasjóðs sem eiga að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA. Það er hámarkslánshlutfall og hámarkslánsfjárhæð. Vissulega má segja að þar með sé verið að skera burt, ef svo má segja, dýrasta hluta íbúðarhúsnæðisins frá lánveitingum Íbúðalánasjóðs. Það er svolítið „brútal“ aðferð til þess að draga markalínur í þessum efnum og vekur spurningar eiginlega í báðar áttir. Það má í fyrsta lagi velta því fyrir sér hvort eðlilegt og rétt sé að búa til mismunun eins og þarna er gert en eins og hv. þingmenn þekkja er skurðarpunkturinn í kringum 50 milljónir, eignir sem eru að verðmæti 50 milljónir eða meira, miðað við fasteignamat, falla utan lánasviðs Íbúðalánasjóðs. Við vitum að á höfuðborgarsvæðinu er töluvert framboð af eignum sem eru einmitt nálægt þessum mörkum, aðeins fyrir ofan eða aðeins fyrir neðan. Þar er auðvitað um að ræða stærri eignir og verðmætari eignir miðað við það sem gengur og gerist en þetta er töluvert stór hluti markaðarins. Það er dálítið sérstakt að búa til þá mismunun sem felst í því að eign sem kostar 48 milljónir falli innan starfssviðs Íbúðalánasjóðs meðan eign sem kostar 51 milljón fellur utan. Ég verð að játa að mér finnst því í raun ekki svarað hvers vegna línan er dregin þarna og hvort það liggi málefnalegar ástæður að baki henni. Rökin eru þau, og það er tilgreint í greinargerð og nefndaráliti, að eignir sem eru yfir þessum mörkum séu það verðmætar að það geti með engum hætti talist þjónusta í almannaþágu að veita lán úr opinberri lánastofnun til slíkra. En þetta er allt saman afstætt. Má ekki segja hið sama um stórar sérhæðir á eftirsóttum stöðum í borginni sem kosta kannski 40 milljónir eða 45 milljónir? Þarna er verið að búa til ákveðinn mælikvarða sem byggir á mjög veikum og hæpnum forsendum.

Í öðru lagi má velta fyrir sér í þessu samhengi hvort það sé einhver sérstök þörf á félagslegu húsnæðiskerfi sem nýtur ríkisábyrgðar eða ríkisaðstoðar yfir höfuð fyrir annað en minni ódýrari eignir þar sem um er að ræða hugsanlega tekjulága einstaklinga. Má ekki segja að að minnsta kosti við hinar bestu aðstæður í vestrænu markaðskerfi mundi markaðurinn sjá um að leysa lánsþörf þeirra sem hafa greiðslugetu og þeirra sem ekki eru undir einhverjum tekjumörkum eða eitthvað þess háttar? Ég velti því fyrir mér.

Við verðum að skoða þetta í ljósi þeirrar forsögu sem við þekkjum hér innan lands. Staðan var sú vel fram á þessa öld að Íbúðalánasjóður var langstærsti aðilinn á markaði íbúðalána, bankarnir komu óverulega að þeim markaði, lífeyrissjóðir að einhverju marki, en Íbúðalánasjóður var yfirgnæfandi á markaðnum. Bankarnir hófu innreið sína á þennan markað 2004 eins og menn þekkja og má segja að þeir hafi farið harla glannalega inn á þann markað. Þeir náðu á tiltölulega skömmum tíma til sín allvænni sneið af markaðnum með því að bjóða með ýmsum hætti hagstæð kjör, að því er menn héldu að minnsta kosti. Staðan var sú um fjögurra ára skeið að það var tiltölulega auðvelt að fá íbúðalán á hagstæðum kjörum, að því er virtist að minnsta kosti á þeim tíma, jafnvel fyrir allri upphæðinni, allri upphæð kaupverðsins. Ég get alveg fallist á að þar, á þeim tíma, gekk þetta fulllangt og eftir á að hyggja var óskynsamlegt að láta Íbúðalánasjóð taka þátt í þeirri yfirboðakeppni sem varð á bankamarkaðnum á þeim tíma eins og gert var. Ég sat á þingi á þessum tíma og þetta var atriði sem var nokkuð umdeilt en um það náðist samkomulag í þeirri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem þá starfaði. Það verður að minna á að ýmsir aðilar, Seðlabanki og fjármálaráðuneytið meðal annars og ýmsir hagfræðingar, vöruðu við því að Íbúðalánasjóður væri látinn elta markaðinn eins og gert var á þeim tíma. Menn geta velt fyrir sér hver reynslan af því var.

Burt séð frá því tel ég að það skipti máli fyrir okkur að hafa Íbúðalánasjóð, miðað við núverandi aðstæður að minnsta kosti, en ég velti fyrir mér hvort ekki væri réttara að sníða starfssviði hans þrengri stakk en gert er í þessu frumvarpi þegar horft til lánastarfsemi. Að minnsta kosti mundi ég vilja halda því opnu þegar til lengri tíma er litið, kannski þegar bankakerfið okkar hefur náð sér miðað við núverandi aðstæður, komist í gegnum þann brimskafl sem það hefur verið í og við erum búin að vinna úr þeim erfiðleikum sem sköpuðust fyrir heimili og fjölskyldur vegna íbúðalána á tíma hrunsins.

Það er annað atriði í frumvarpinu sem ég hef verulegar efasemdir um og það snýr að hugmyndinni um það sem mér sýnist eiga að verða risavaxið leigufélag í Íbúðalánasjóði, ríkisrekið leigufélag sem á að bjóða leiguhúsnæði, meðal annars í samkeppni við þá sem leigja húsnæði á markaði, svo sem leigufélög, jafnvel leigufélög sem hafa notið fyrirgreiðslu frá Íbúðalánasjóði. Ég vildi segja það áður en ég lýk máli mínu að verði það niðurstaðan að stofna leigufélag af því tagi sem hér er talað um er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera til mjög skamms tíma, þ.e. að það eigi að vinna að því. Við vitum að Íbúðalánasjóður hefur eignast fjölmargar íbúðir og hús á undanförnum árum. Ég held að markmiðið eigi að vera að koma þeim út á markaðinn að sem mestu leyti, selja þessar eignir, og þar sem ástæða er til eigi Íbúðalánasjóður jafnvel að selja frá sér eignir til leigufélaga eða til annarra aðila sem geta þá haldið áfram að leigja. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi til lengri tíma að reka risavaxið leigufélag, ég held að það sé ekki góð hugmynd. Ef það verður hins vegar um að ræða skammtímaráðstöfun í þessa veru held ég að jafnframt eigi að fylgja áætlun um það hvernig ríkið losar sig út úr henni.

Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti. Ég vil að lokum árétta að ég tel að það sé afar mikilvægt áður en gengið er frá endanlegri afgreiðslu þessa frumvarps að fram fari nánari og betri umræða um þessi álitaefni; heimildir og takmarkanir á sviði starfsemi Íbúðalánasjóðs. Jafnframt verði reynt að leggja betra mat á það en gert hefur verið fram til þessa hvort raunverulega er komið til móts við þær athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA setti fram síðasta sumar eftir margra ára athugun á þessum markaði hér á landi og starfsemi þessarar stofnunar, hvort verið er að bregðast við með fullnægjandi hætti eða hvort við lendum í því innan skamms, hugsanlega ekki á næsta þingi heldur jafnvel á þarnæsta þingi, að fara í að breyta þessum lögum aftur vegna þess að ekki eru uppfyllt þau skilyrði sem sett eru fram af hálfu hinnar evrópsku eftirlitsstofnunar. Ég tel að það væri skynsamlegra ferli við lagasetningu, ég tel að þannig værum við að vanda betur vinnuna. Ég átta mig ekki á því hvort það er raunveruleg brýn þörf á að ljúka þessari lagasetningu nú í þessum mánuði eða þeim næsta. Ég hef ekki séð í gögnum málsins eða heyrt í ræðum þingmanna sannfærandi röksemdafærslu fyrir því að það sé nauðsynlegt að ljúka þessu máli. Ég mundi halda að það að þetta lagasetningarferli er í gangi dugi til þess að róa hina ágætu eftirlitsstofnun í Brussel. Ef menn telja að það sé brýn nauðsyn á að ljúka (Forseti hringir.) málinu nú er mikilvægt að þær röksemdir komi fram.