140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:46]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað þegar við ræðum um Íbúðalánasjóð en að velta eilítið fyrir sér stöðu sjóðsins. Ég hef verið að inna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins eftir framtíðarsýn þeirra á sjóðinn. Hv. þingmaður kom reyndar lítillega inn á það í ræðu sinni.

Sýn Framsóknarflokksins á þessi mál er nokkuð skýr og kemur vel fram í nefndaráliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur þar sem segir, með leyfi forseta:

„Afstaða minni hlutans er að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði.“

Ég hef rakið það í ræðum mínum hvernig það var á árunum fyrir hrun þegar fjármagn flæddi út úr öllum fjármálastofnunum. Þá var Íbúðalánasjóður eina lánastofnunin sem lánaði til margra hinna dreifðu byggða landsins.

Fram hefur komið, eins og ég sagði áðan, að afstaða sjálfstæðismanna til sjóðsins er nokkuð skipt. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að innan Sjálfstæðisflokksins væru þeir sem vildu selja eða einkavæða Íbúðalánasjóð í minni hluta. Hún taldi sig ekki tilheyra þeim minnihlutahóp. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér í umræðunum að skynsamlegt væri að selja sjóðinn eða einkavæða hann. Þetta eru auðvitað gamlar deilur, en mig langar að inna hv. þingmann eftir því hver hans sýn er á þetta. Er hann sammála minnihlutaáliti hv. þm. Eyglóar Harðardóttur um að Íbúðalánasjóður gegni lykilhlutverki á íslenskum húsnæðismarkaði eða tilheyrir hann þeim hópi Sjálfstæðisflokksins sem vill einfaldlega einkavæða sjóðinn og selja hann? Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á þetta því að skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins virðast (Forseti hringir.) vera nokkuð breytilegar.