140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki er einhugur um alla þætti sem varða stöðu Íbúðalánasjóðs innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta er ágreiningsmál sem hefur lengi verið þar uppi þannig að það sé sagt skýrt og af heiðarleika.

Ég held að æskilegt væri, ef þær aðstæður sköpuðust, að ríkið þyrfti ekki að vera aðili á íbúðamarkaði. Ég held hins vegar að það sé ekki fyrirsjáanlegt á næstu árum. Ég held að í stöðunni eins og hún er, sérstaklega þegar við erum að fara í gegnum svo mikla endurskipulagningu annars vegar á fjármálageiranum og hins vegar á skuldamálum heimila og einstaklinga, sé ekki hægt að taka jafnróttækar ákvarðanir og einkavæðing Íbúðalánasjóðs væri við núverandi kringumstæður.

Ég get hins vegar séð fyrir mér, ef við náum því einhvern tíma í samfélaginu að ná sæmilegu efnahagslegu jafnvægi og náum okkur upp úr þeirri kreppu sem við erum í núna, að aðkoma ríkisins að íbúðalánamarkaði verði minni háttar, ekki þannig að íbúðalán séu að stofninum til eða meginhluta til veitt af opinberri lánastofnun. Ég held að þarna eigi að vera samkeppni og hún eigi að vera milli einkaaðila. Ég held hins vegar að við séum ekki komin á þann stað miðað við aðstæður eins og þær eru í dag. Íbúðalánasjóður gæti hugsanlega haft hlutverk sem væri þá raunverulegt félagslegt hlutverk, raunverulegt hlutverk í almannaþágu, en ekki að veita vel bjargálna einstaklingum (Forseti hringir.) lán á öðrum kjörum en fást hjá almennum fjármálastofnunum.