140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á góðæristímum 2004, 2005, 2006 og 2007 var því jafnan haldið fram af félögum hv. þingmanns — ég man ekki hver skoðun hv. þingmanns var á því — að það væri mjög óeðlilegt að Íbúðalánasjóður væri á íbúðalánamarkaði og menn ættu bara að sækja á almennan markað. Eins og ég rakti áðan var staðreyndin sú á þessum árum að fólk af dreifbýlli svæðum landsins gat ekki sótt neitt annað. Því miður verður maður aðeins var við það hjá mörgum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þegar þeir fjalla um þessi mál, að í rauninni er ekkert fjallað um hvernig eigi að koma til móts við þessi svæði til að mynda. Það eru sömu rökin, að það sé ekki eðlilegt að Íbúðalánasjóður komi inn á markað með þessum hætti. Hvernig sér þá hv. þingmaður fyrir sér þessi svæði?

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði í ræðu í gær að hann vonaðist til þess að ef menn á annað borð þyrftu lán gætu þeir alltaf leitað eitthvað, ef þeir leituðu nógu vel og leituðu nógu lengi. Þetta var ekki raunin hér á árunum fyrir hrun. Og af því að hv. þingmaður talar um að aðstæður í dag bjóði ekki upp á að Íbúðalánasjóður dragi sig út af þessum markaði, hvaða aðstæður eru það þá sem þurfa að breytast og hvernig ætlar hv. þingmaður að tryggja stöðu þeirra svæða sem áttu í erfiðleikum með að fá fjármagn á góðæristímum þegar alls staðar flæddi út fjármagn? Ég held að þingmenn verði að svara þessu þegar þeir fjalla um þessi mál því að þegar maður skoðar þau út frá því sjónarhorni styrkist maður í þeirri skoðun að Íbúðalánasjóður gegni algjöru lykilhlutverki á íslenskum húsnæðislánamarkaði líkt og hv. þm. Eygló Harðardóttir (Forseti hringir.) bendir á í minnihlutaáliti sínu.