140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi stöðu landsbyggðarinnar sérstaklega þá skildi ég ekki á þessum tíma sem við erum að tala um, væntanlega fyrst og fremst árin 2004–2008, þau sjónarmið sem vissulega voru til innan bankakerfisins að það væri óhagstætt að veita lán út á land. Ég áttaði mig aldrei á því. Ég held að reynslan sýni að jafnvel þó að á tilteknum tímabilum og tilteknum svæðum hafi markaðsverð verið lægra úti um landið en á höfuðborgarsvæðinu sé engin ástæða til þess að ætla að lán til slíkra fasteignakaupa séu verri lán eða áhættusamari en lán á höfuðborgarsvæðinu. Í prinsippi tel ég að það ætti að vera alveg jafngóður bisness fyrir venjulegan banka að lána til fasteignakaupa á blómlegum stöðum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað eru sum svæði í vörn, sérstaklega ef maður ímyndar sér þá hryllingsmynd að núverandi ríkisstjórn verði lengi við völd, en hins vegar getur það verið alveg jafngóður bisness fyrir fjármálafyrirtæki að lána til íbúðarkaupa á Dalvík eða Vopnafirði og í Reykjavík. Það fer bara eftir greiðslugetu lántakans og öðrum slíkum þáttum. Ég hugsa að afskriftir lána hafi verið meiri á höfuðborgarsvæðinu en víða um landið ef út í það er farið, (Gripið fram í.) þó að ég hafi ekki „statistikk“ um það.

Hins vegar hefur hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson bent á þá hugmynd að Íbúðalánasjóður mundi starfa sem (Forseti hringir.) eins konar heildsölubanki til þess að greiða meðal annars fyrir lánveitingum til einkabanka (Forseti hringir.) sem gætu lánað áfram á hin kaldari svæði landsins í þessu tilliti. Ég tel að (Forseti hringir.) það sé nokkuð sem vel komi til greina að skoða.