140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er mikilvægt að við ræðum vel húsnæðismarkaðinn, húsnæðislánakerfið og stöðu Íbúðalánasjóðs og hlutverk hans.

Ég spurði hér einn þingmann í morgun út í ákveðna hluti í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem kemur fram á bls. 23, rétt fyrir neðan miðja síðu, að það samræmist varla félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs að lána fyrir mjög verðmætum eignum, eitthvað svoleiðis. Nú kunna að vera einstaklingar víða um land sem hafa tök á því að greiða af verðmætum eignum, hér er átt við 50 milljónir af fasteignamati eða hærra — hafa verður í huga að byggingarkostnaður hefur hækkað mjög mikið þannig að það eru kannski ekki miklar hallir sem menn byggja fyrir þennan pening. Miðað við þetta virðist mega líta svo á að þeir sem fá lán hjá Íbúðalánasjóði eigi að búa sig undir að eignir þeirra verði að vera í ákveðnum stærðarflokki eða verðmætaflokki. Þá hljótum við að spyrja: Hver á að þjónusta þá sem búa úti á landi og geta, en þurfa til þess lánsfé, byggt sér aðeins verðmætara húsnæði en þarna er rætt um? Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan að hér er ekki um að ræða einhverjar stórkostlegar 400–500 fermetra hallir, byggingarkostnaður hefur hækkað mjög mikið. Hver á að lána á þessi svæði ef fjármálastofnanirnar á markaðnum, þær sem ekki eru undir beinni stjórn ríkisins, gera það ekki? Opinbert kerfi eða opinber sjóður hlýtur að þurfa að koma þar inn til að gætt sé fulls jafnréttis (Forseti hringir.) og jafnræðis, nema menn hafi einhverjar aðrar hugmyndir.