140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta ágæta andsvar hv. þingmanns vekur margar spurningar, m.a. hvort það séu mannréttindi sem ríkisvaldinu beri að tryggja að menn geti byggt sér sæmilega vel við vöxt alls staðar á landinu, menn geti byggt stór hús og glæsileg og fengið til þess lán alls staðar á landinu. Ég velti því fyrir mér hvort það sé eitthvað sem við getum talað um að sé lágmarkshlutverk ríkisvaldsins að tryggja. Ég velti líka fyrir mér hvort það flæki ekki stöðuna svolítið ef menn eru annars vegar að tala um Íbúðalánasjóð sem lánastofnun sem eigi að tryggja ákveðið félagslegt hlutverk og hins vegar ef menn hugsa sjóðinn sem einhvers konar byggðasjóð. Ég velti fyrir mér hvort menn lendi ekki í klandri ef þeir reyna að smíða þannig kerfi.

Menn hafa verið svolítið í þeirri stöðu undanfarin ár og jafnvel síðastliðin 20 ár með þetta kerfi að mörg markmið hafa verið í gangi. Eitt markmið hefur verið hið félagslega hlutverk bæði út frá byggðum og út frá því að tryggja hugsanlega þeim lánakjör sem ekki hafa átt aðkomu annars staðar o.s.frv. Það eru svo sem ein rök, en eru það góð rök þegar kemur að því að byggja eða kaupa stærri og verðmætari hús þar sem augljóst er að greiðslugetan er töluverð?

Ég verð að spyrja hv. þingmann. Nú þekki ég ekki hvernig það var en ég veit að menn tóku stundum vitlausar ákvarðanir innan fjármálastofnana á árunum fyrir hrun. Er það virkilega vont og erfitt fyrir þá (Forseti hringir.) sem geta greitt af tiltölulega háum húsnæðislánum að fá lán til bygginga (Forseti hringir.) eða kaupa á húsnæði vítt og breitt um landið?