140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið við spurningunni er já, það er virkilega þannig. Það er staðreynd og búið að vera þannig í mörg ár að þó svo að einstaklingar hafi getað sýnt fram á umtalsverða greiðslugetu fá þeir ekki lán samt sem áður hjá hinum almennu fjármálastofnunum. Ástæðan er yfirleitt sú að talið er að eignin standi ekki undir veði fyrir láninu.

Ég get nefnt nýlegt dæmi um unga fjölskyldu sem ætlaði að byggja sér hús úti á landi. Húsið var utan þéttbýlis og fólkið stóðst alla pappíra og allt slíkt. Það fékk í rauninni jákvæða niðurstöðu og jákvætt erindi hjá bankanum. Síðan kom í ljós að bankinn hafði áttað sig á því að húsið yrði ekki staðsett í þéttbýli heldur í dreifbýli og þá kom neitun fyrir láninu. Þetta er staða sem er algjörlega óþolandi að búa við. Ég get fullyrt að húsið þar sem það átti að rísa hefði jafnvel orðið verðmætara en í þéttbýli vegna staðsetningarinnar. Þetta er staðreynd og hefur lengi verið.

Auðvitað þarf að skilgreina hlutverk Íbúðalánasjóðs. Sjóðurinn á vitanlega að hafa félagslegt hlutverk. En hvað menn kalla hann, hvort menn kalla hann byggðasjóð, Íbúðalánasjóð eða eitthvað slíkt, finnst mér ekki skipta öllu máli. Ef hinar almennu stofnanir sem eru á markaði treysta sér ekki til að gæta jafnræðis á milli landsmanna finnst mér, og það er mín skoðun, að ríkið eigi að koma að því með einhverjum hætti. Það kann hins vegar að vera hægt að gera það eins og mér fannst hv. þingmaður nefna í andsvari við annan hv. þingmann, að Íbúðalánasjóður kæmi að því með öðrum hætti en gert er í dag. Í það minnsta þarf að tryggja að fæla fólk ekki frá ákveðnum stöðum og beina því á aðra staði með þessari aðferð. Nóg er til staðar nú þegar í þeim efnum að mínu viti.