140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur aðeins borið á því í þessari umræðu að menn hafa velt fyrir sér stefnu flokkanna varðandi Íbúðalánasjóð eða Húsnæðismálastofnun eins og við kölluðum hana sem tókum lán hjá henni í gamla daga. Menn hafa gert ákveðinn greinarmun á stefnu Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það er þó staðreynd að þessir tveir flokkar fóru með völd í landinu um margra ára skeið og stuðluðu í raun að ákveðnum breytingum í þessum rekstri og voru nokkuð samstiga í því. Ég velti fyrir mér hvort menn geti ekki almennt verið sammála því að þetta sé kannski til komið vegna þess hversu vanþróaður þessi markaður okkar hefur verið. Hann hefur verið að þróast með ákveðnum hætti frá því að bankarnir voru í ríkiseigu og voru ekki með á þessum markaði. Síðar breyttist þetta yfir í að fjármálastofnanir almennt komu inn á markaðinn. Lífeyrissjóðirnir spiluðu alltaf einhverja rullu í þessu. Er það kannski ekki út af því sem við erum með þetta kerfi?

Eru menn ekki sammála því að ef við værum með þróaðan markað væri ekki óeðlilegt að hafa þá framtíðarsýn að lánamarkaður vegna íbúðarhúsnæðis yrði sambærilegur og almennt gerist í nágrannalöndum okkar og að hlutverk hins opinbera væri þá kannski meira að vera með félagslega hluta kerfisins?