140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sá slagur hafi nú ekki verið mjög rammur milli þessara ágætu samstarfsflokka þó að vissulega hafi verið skiptari skoðanir um þetta mál innan Sjálfstæðisflokksins. Ég fer kannski betur yfir það í ræðu minni hér á eftir. En ég tek undir með hv. þingmanni að þessi markaður hefur ekki verið mjög þróaður og það var einmitt inntak spurningar minnar áðan að þessi markaður hefur verið tiltölulega vanþróaður. Við búum auðvitað við ákaflega sérstakar aðstæður, við búum í tiltölulega stóru landi miðað við íbúafjölda og byggðir okkar eru dreifðar og verðmætin eru misjöfn.

Nú eru lífeyrissjóðirnir þátttakendur á þessum markaði með óbeinum og beinum hætti, óbeinum hætti með því að kaupa skuldabréfin sem Íbúðalánasjóður gefur út og fjármagna þannig sjóðinn að einhverju leyti. Væri eðlilegt (Forseti hringir.) að lífeyrissjóðirnir kæmu með beinni hætti inn í lánveitingar til íbúðarhúsnæðis og þá á öllu landinu?