140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar mitt varðandi lífeyrissjóðina er já og nei. Ég viðurkenni að ég hef oft nefnt það í þessum ræðustól og hef látið það fara verulega í taugarnar á mér hvernig lífeyrissjóðirnir hafa litið á vanda heimilanna eftir hrun sem hlaust af húsnæðislánum. Lífeyrissjóðirnir hafa verið algjörlega stopp þar, mjög þverir og tregir til að gera eitthvað til þess að leiðrétta stöðuna eða koma til móts við fólk sem er með erfið húsnæðislán. Það spilar að sjálfsögðu inn í málefni Íbúðalánasjóðs þar sem lífeyrissjóðirnir eru einn helsti lánveitandi sjóðsins. Ég er því ekkert endilega sannfærður um að það sé rétt að þeir komi eitthvað meira inn á þennan markað nema þeirra viðhorf breytist. Það er vitanlega þannig að mjög margir sem kaupa sér fasteign hugsa hana bæði sem sparnað og sem lífeyri, þ.e. þá eign sem myndast á endanum. Það eru margir sem horfa til þess að þegar kemur á efri ár eigi þeir kannski 10–15 milljónir, eins og víða er kannski úti á landi, til þess að bæta upp lífeyri sinn af því að lífeyrir lífeyrissjóðanna er mjög lágur eða ekki nógu góður.

Þetta hugsa lífeyrissjóðirnir því miður ekkert um að mínu viti þegar þeir fjalla um skuldavanda heimilanna. Ég er því ekki sannfærður um að þessir aðilar eigi að auka hlut sinn á markaðnum, sérstaklega miðað við viðhorf þeirra til þessara hluta. Það eru mörg heimili sem hafa séð á eftir þessum lífeyri sínum og sparnaði brenna upp og það er óásættanlegt að menn í þessum sjóðum horfi bara fram hjá því.

Aðeins varðandi áflog milli sjálfstæðismanna og framsóknar út af Íbúðalánasjóði, þá var ég einu sinni aðstoðarmaður félagsmálaráðherra og undir hann heyrðu húsnæðismál, og ég get rifjað ýmislegt upp.