140. löggjafarþing — 122. fundur,  15. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[14:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það hámark sem sett er í frumvarpinu til að koma til móts við kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA um að örva samkeppni. Þar er sagt að hámarksverðmæti eignar sem lánað er til sé 50 milljónir, miðað við fasteignamat.

Nú er það þannig að úti á landi þarf að byggja hús eins og í Reykjavík og ef enginn lánar annar en Íbúðalánasjóður út á land og menn ætla að byggja sér húsnæði geta þeir ekki byggt stærra húsnæði en um það bil 150 fermetra vegna þess að ef húsnæðið verður dýrara en 50 milljónir, t.d. 50 milljónir og 500 þús. kr., fæst ekki lán hjá Íbúðalánasjóði, en ef það er 49 milljónir og 500 þús. kr. fæst lánið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Getur hann fallist á það sjónarmið með mér að ef þetta fyrirkomulag verður svona verði húsnæði úti á landi í raun þröngvað, í gegnum lánveitingar, í aðra stærðarflokka en gengur og gerist á þeim svæðum, t.d. eins og á Akureyri og í Reykjavík, þar sem bankastofnanir lána mun fremur til íbúðarhúsnæðis en í hinum dreifðu byggðum? Telur hann að þetta leiði til þess að byggt verði húsnæði á landsbyggðinni sem verði ólíkt að stærð en á þeim þéttbýlissvæðum sem bankarnir lána til?