140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja strax við hæstv. forseta að það þýðir ekkert að biðja hv. þm. Mörð Árnason að gæta orða sinna. Hann kann það ekki, hann er ekki maður til að rísa undir því. Hann ræður ekki við það, það vita allir sem hafa fylgst með hv. þingmanni í þingsölum. Hann er ekki maður að því að geta staðið nokkurn tímann hér upp öðruvísi en að verða sér til skammar.

Hér hafa staðið yfir tilraunir undanfarna daga, og reyndar vikur, til að leiða til lykta ýmis ágreiningsmál og meðferð þeirra hér í þinginu. Þær viðræður hafa ekki skilað árangri. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur setið fast við sinn keip og neitað að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru, bæði á efnisþáttum frumvarpa og að skapa þá forgangsröðun sem nauðsynleg er. Við þekkjum það sem höfum verið hér á þinginu að það er nákvæmlega þannig sem mál hafa gengið fyrir sig undir lok þings að vori og undir lok þings fyrir jól, að þá hafa stjórn og stjórnarandstaða freistað þess að ná saman um svona hluti. Þá hefur þurft að gefa eftir, ekki síst af hálfu stjórnarliðanna vegna þess að það eru þeir sem bera fram málin. En það hefur ekki verið vilji til þess. Þrátt fyrir það hafa verið afgreidd hér fjölmörg mál (Forseti hringir.) í þessum mánuði sem sýnir að vilji stjórnarandstöðunnar er skýr í þeim efnum að reyna að greiða fyrir málum eins og eðlilegt er.