140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég geri athugasemd við fundarstjórn forseta. Það er ekki boðlegt þegar þingið er í þeirri stöðu sem það er í að hér komi hv. þingmenn eins og Björn Valur Gíslason og segi úr ræðustól Alþingis að ákveðnir þingmenn hafi brugðist skyldum sínum sem þingmenn og vísar þar til stjórnarandstöðunnar í heild sinni.

Virðulegur forseti. Þegar slík ummæli eru höfð um þann fjölda þingmanna sem er í stjórnarandstöðu er það engan veginn boðlegt og forseta ber að slá í bjöllu og víta þingmann sem ber aðra þingmenn slíkum sökum. Ég frábið mér sem þingmaður á Alþingi Íslendinga að vera vænd um það af Birni Vali Gíslasyni að ég ræki ekki skyldur mínar sem þingmaður. Ég ætlast til þess að forseti þingsins slái í bjöllu (Forseti hringir.) og í það minnsta vari menn við þegar þeir fara fram með þessum hætti.