140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hvet hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að menn átti sig á mikilvægi þess að læra af mistökum sínum. Þannig gæti ríkisstjórnin dregið þann lærdóm af þessu þingi í vor að það borgi sig ekki að koma seint fram með stór og umdeild mál og jafnvel mál sem hafa sum hver verið tilbúin og verið lögð fram áður á Alþingi en ekki komið fram fyrr en undir lok þings. Við hljótum öll að læra af því. Til dæmis gætu einstakir þingmenn eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason lært af reynslunni hvaða áhrif það hefur á þingstörfin að tala með þeim hætti til annarra þingmanna eins og hann hefur leyft sér úr þessum stól.

Við í stjórnarandstöðunni gætum svo reynt að læra af reynslunni og beita okkur fyrir breytingum á þingsköpum þannig að mál verði lögð fram fyrr, að færðar verði fram þær dagsetningar (Forseti hringir.) sem hingað til hafa tíðkast og eru viðhafðar í þinginu. (Forseti hringir.) Lærum af mistökum okkar.