140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:18]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við tökum fyrir til 3. umr. frumvarp til laga um menningarminjar. Þetta frumvarp var kallað inn til nefndar á milli 2. og 3. umr. Nefndin fékk á sinn fund þá sem sent höfðu inn athugasemdir eftir að nefndarálitið kom fram við 2. umr. Nefndin fékk einnig á sinn fund fulltrúa úr ráðuneytinu.

Nefndin hefur gert nokkrar breytingartillögur við frumvarpið á milli 2. og 3. umr. Fyrst er til að dreifa að í 3. gr., þar sem menn töldu skynsamlegt að annaðhvort yrði notuð 1900-reglan eða 100 ára reglan, var ákveðið að hverfa frá því að forngripir væru lausamunir frá 1900 og miðað er nú við 100 ár um fornminjar. Þar var tekið tillit til þeirra óska að samræma aldursmörkin. Lögð er fram breytingartillaga þar að lútandi.

Í 6. gr. var gerð athugasemd þar sem stóð, með leyfi forseta:

„Með fornleifarannsókn er átt við hvers kyns vísindalegt starf …“

Talið var að æðimargt gæti fallið undir skilgreininguna „hvers kyns vísindalegt starf“. Til að ljóst sé að nefndin er fyrst og síðast að horfa til vísindalegra starfa er „hvers kyns“ fellt brott úr 6. gr. þannig að ekki fari á milli mála að eingöngu er átt við vísindalegt starf.

Líka eru gerðar breytingar, virðulegi forseti, á 8. gr. um setu í fornminjanefnd. Athugasemdir komu um að hlutur fagfólks í fornminjanefnd væri ekki nægjanlegur og því er lagt til að í stað þess að ráðherra skipi tvo fulltrúa verði einn fulltrúi skipaður af ráðherra en annar af Rannís og er það í sátt og samlyndi við þá sem gerðu athugasemdir við fornminjanefnd.

Síðan var umræða um 16. gr. sem varðar skráningu vegna skipulags- og undirbúningsframkvæmda og liggur líka frammi breytingartillaga frá Merði Árnasyni þar um sem ég geri ráð fyrir að hann muni mæla fyrir. Það sem fram kemur í 16. gr. er að þegar farið er í aðalskipulag og svæðaskipulög hvar sem er á landinu sé skylt að skrá og fyrir liggi greinargóð mynd af menningarminjum á svæðinu, en ekki er farið fram á og ekki ætlast til í þessum lögum að skráning verði á vettvangi.

Það er hins vegar alveg skýrt og skorinort að þegar kemur að landnýtingaráformum samkvæmt aðalskipulagi og fara á í deiliskipulag að þá „er skylt að skráning fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja fari fram á vettvangi á þeim svæðum sem fyrirhugað er að nýta sem atvinnu- eða íbúðarsvæði“ og deiliskipulag verði ekki afgreitt né leyfi til framkvæmda veitt fyrr en sú skráning á vettvangi hefur farið fram. Þessi grein er unnin í samvinnu við ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga. Á fundi með þeim fulltrúum sem gerðu athugasemdir við þetta og töldu að skráning ætti að fara þegar fram á vettvangi við gerð aðalskipulags og svæðaskipulags gat nefndin ekki og fallist ekki á þá skoðun og telur að það sé ekki hægt. Eins og ég sagði var sú ályktun í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti.

Tillaga hv. þm. Marðar Árnasonar liggur fyrir og er í þá veru að þetta sé samkomulagsatriði milli Minjastofnunar Íslands og sveitarfélaganna. Í mínum huga, virðulegur forseti, er vart hægt að setja í lög að það sé samningsatriði á hvern hátt skráning minja skuli fara fram við gerð aðalskipulags og svæðaskipulags.

Virðulegur forseti. Í 36. gr. þar sem talað er um fornleifarannsóknir hefur nefndin ákveðið að fella á brott 1. mgr. sem segir, með leyfi forseta:

„Tilkynna skal Minjastofnun Íslands um allar fornleifarannsóknir í landinu.“

Það er ekki gert til að rýra rannsóknir í landinu. Við töldum hins vegar of mikið mál ef þyrfti að tilkynna hverja og eina fornleifarannsókn þó að æskilegt væri og hugmyndin að baki þessari grein væri utanumhald Minjastofnunar. Í frumvarpinu er það skilyrt að allar fornleifarannsóknir í landinu séu tilkynntar Minjastofnun en við leggjum til að það ákvæði falli brott og leggjum jafnframt til breytingu á 1. mgr. 40. gr. í þá veru að Minjastofnun Íslands mæli fyrir um það í sérhverju rannsóknarleyfi hvenær skuli skila gögnum en í frumvarpinu er kveðið á um ársfrest.

Þetta eru í grófum dráttum helstu breytingar á frumvarpinu á milli 2. og 3. umr. Ég legg áherslu á, virðulegi forseti, að það frumvarp sem áætlað er að taki gildi 1. janúar 2013 snýst um stjórnsýslustofnunina Minjastofnun Íslands sem á að halda utan um ferli fornleifarannsókna og skráninga á minjum, húsum og öðrum verðmætum í eigu íslensku þjóðarinnar. Þetta er lokahnykkur utan um þau lög sem þegar hafa verið samin, svokölluð safnalög og lög um Þjóðminjasafn Íslands.

Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu gengur þetta frumvarp væntanlega til atkvæðagreiðslu og ég vænti þess að þingheimur samþykki það.