140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:27]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var niðurstaða nefndarinnar til að auðveldara væri fyrir Minjastofnun Íslands að halda utan um minjar því að þá ríkti eitt ártal, ef við getum sagt sem svo, fyrir allar minjar í landinu, ekki 1900 fyrir einhverjar ákveðnar minjar og 100 ár fyrir aðrar tilteknar minjar. Það er í ljósi þess sem ákveðið er að hafa 100 ár.

Það er hins vegar ljóst eins og fram hefur komið og er í lögum að ráðherra getur aflýst friðun af 100 ára minjum. Telji ráðherra sem dæmi að til séu í landinu æðimörg hús sem eru 100 ára þarf ekki endilega að friða öll húsin heldur er hægt að aflétta friðun á ákveðnum húsum en halda engu að síður í ákveðinn arkitektúr til að sagan sé skráð með friðlýsingu á ákveðnum þáttum.

Fyrst og síðast er þetta gert, virðulegur forseti, til að samræmi sé í föstum munum og lausum. Hugmyndin um 100 ár en ekki „frá árinu 1900“ er vegna þess að það gilti 100 ára og eldri um hús en frá árinu 1900 eða eldri um aðrar minjar. Breytingin er gerð til að það sama gildi einfaldlega um fornminjar í landinu og það sé síðan ráðherra að aflétta friðlýsingu eða friðun ef talið er að það saki ekki og komi ekki niður á þeim þjóðminjum sem við teljum að við eigum.

Ég vona að hafi svarað hv. þingmanni.