140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hin háa allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið vel að þessu frumvarpi og ég veit til þess að hún hefur haldið um það marga fundi og meðal annars gert ágætar breytingar á tillögum sínum milli 2. og 3. umr. í samræmi við ábendingar sem henni bárust héðan úr salnum en þó einkum frá fagmönnum í greininni og stofnunum þar sem lögð er stund á þau fræði og þá starfsemi sem hér er um fjallað.

Engin af breytingum nefndarinnar að þessu sinni varðar 16. gr. um fornleifaskráningu. Ég veit að um þetta var rætt og það heyrðu menn líka í ræðu hv. framsögumanns málsins. Það kann að vera vegna þess að hugmynd að lausn á álitamálum í tengslum við fornleifaskráninguna og 16. gr. kom ekki upp fyrr en nefndin hafði fjallað um málið, gefið út álit um það og mótað breytingartillögur sínar. Þá var orðið of seint að nefndin kæmi að því aftur, að því er mér skildist. Það varð því úr að þessi breytingartillaga er komin undir mínu nafni og lögð fram við 3. umr.

Það er rétt að taka fram í upphafi að tillagan er til þess flutt eingöngu að það megi takast enn aukið samkomulag og meiri sátt um þessi lög, sem væntanlega verða, ekki aðallega hér á þingi heldur einkum í hópi þeirra sem eiga að starfa eftir lögunum. Þessi breytingartillaga er flutt í fullri vinsemd og algerri virðingu við nefndina, framsögumann málsins og formann nefndarinnar og hv. þingmenn. Hún er þannig löguð að miðað er við að haldið sé þeirri grundvallarreglu í þjóðminjalögum, sem þessi lög taka við af, í 11. gr. að skylt sé að skrá allar fornleifar og sú skráning eigi að fara fram áður en gengið er frá skipulagstillögum í einstökum sveitarfélögum.

Í 11. gr. þjóðminjalaga segir, með leyfi forseta:

„Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti.“

Og síðan segir í 2. mgr. 11. gr.:

„Skylt er að fornleifaskráning fari fram áður en gengið er frá svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi eða endurskoðun þess og skal sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög standa straum af kostnaði við skráninguna.“

Þarna er að vísu talað um svæðisskipulag en eðli þess hefur breyst síðan þessi lög voru sett. Í frumvarpinu eins og það kemur frá ráðherra og í tillögu þeirra sem er við mig kennd er gert ráð fyrir að svæðisskipulagið detti út en þessi grundvallarregla haldist.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu hefur gengið illa að koma þessari 2. mgr. í framkvæmd, að fornleifaskráningunni sé lokið áður en aðalskipulag og deiliskipulag eru samþykkt. Það er auðvitað ekki gott að hafa lög sem ekki er farið eftir og kannski ekki hægt að fara eftir. Aðalástæðan er sú að landmikil sveitarfélög en fámenn og þar með ekki auðug hafa hreinlega ekki efni á því að gera þetta áður en aðalskipulag er samþykkt eða endurskoðað. Þá er okkar að finna leið til að halda grundvallarreglunni að mínu viti en gera mönnum kleift að haga þessum málum í samræmi við fjárhagslega getu og fulla skynsemi. Um það fjallar þessi breytingartillaga og í henni er gert ráð fyrir að halda grundvallarreglunni úr gildandi lögum og stíga ekki skref til baka frá þeim, enda er þetta góð regla og þar að auki er í gildi um öll grannlönd okkar að fornleifar skulu skráðar, og einnig sé haldið þeirri ágætu tillögu frumvarpsins og nefndarinnar að áður en deiliskipulag er samþykkt skuli klárlega fara fram vettvangsrannsókn og fullkomin skráning á fornleifum, húsum og mannvirkjum.

Hins vegar er gert ráð fyrir því að Minjastofnun Íslands setji reglur um lágmarkskröfur sem gera skuli til skráningar fyrir hvort skipulagsstig um sig. Með þessari breytingartillögu er Minjastofnun Íslands gefin heimild til að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld á hverjum stað um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma. Þarna er komið það samkomulag sem um var rætt í ræðu framsögumanns og ég þakka henni fyrir að hafa reifað þessa tillögu lítillega. Hún sagði að þetta væri ekki hægt í lögum. Það er kannski fullmikið sagt því að víða er gefin heimild einmitt til þess að aðilar skipi málum á þann veg sem hagkvæmast er og ekkert óeðlilegt að gera það.

Ég hugsa mér þetta þannig, hvernig sem þetta yrði í reynd, að Minjastofnun og sveitarfélögin kæmu sér saman um að athuga stöðuna í hverju sveitarfélagi fyrir sig, reyndu að finna út hversu viðamikil skráning yrði í sveitarfélögunum og gerðu síðan samkomulag um það á hvaða tíma hún gæti farið fram og hvernig, ef menn vilja hafa það svo nákvæmt, og hvaða svæði sé brýnast að fara í. Þetta er mikilvægt, ekki bara til að halda til jafns við grannríki heldur líka til að koma í veg fyrir að þessi vettvangsskráning endi þannig að það séu aðeins fáeinir skikar sem fá raunverulega fornleifaskráningu. Ef þessi breyting yrði samþykkt yrði hún þar að auki til þess að gert yrði ráð fyrir því að skráningin færi fram síðar í ferlinu en nú á að vera samkvæmt lögum, þ.e. eftir að landnýtingaráform liggja fyrir. Þegar deiliskipulag er gert liggja landnýtingaráform fyrir og þá er ljóst hvað sveitarfélagið ætla sér að gera, en auðvitað er eðlilegra að við skipulag viti menn hvað er á svæðinu þannig að hægt sé að haga nýtingu lands miðað við þá vitneskju. Lausagangur í þessu getur orðið til þess að landnýtingaráformin séu fyrirhuguð og komin langt án þekkingar á menningarminjum sem eykur hættuna á því að menningarminjarnar þurfi að víkja vegna framkvæmda en eykur líka hættuna á því að framkvæmdir tefjist og skipulag nái ekki í raun og veru í framkvæmd á þeim tíma sem menn gerðu ráð fyrir.

Um þetta má nefna ýmis dæmi. Það er rétt að nefna það af því að við höfum verið að ræða það mál undanfarna daga að fundist hafa fornminjar á þeim stað þar sem vestri gangamunninn í Vaðlaheiðargöngum á að myndast og nú er verið að kanna þær. Það er sagt taka nokkrar vikur og við skulum vona að það verði en við vitum það ekki. Þetta gæti jafnvel tafið þessa framkvæmd sem hér var samþykkt með meiri hluta atkvæða og mönnum þykir mikilvægt að fara í. Að minnsta kosti er ljóst að þær menningarminjar sem þar er um að ræða verða ekki varðveittar á sínum stað nema með miklum látum, vil ég segja, miklum breytingum á ráðagerðum um Vaðlaheiðargöng.

Þessi litla breytingartillaga þarf kannski ekki miklu meiri reifun. Ég vonast til þess í barnaskap mínum að menn fyrirgefi mér það að hafa ekki komið með þessa hugmynd fyrr. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að hún lá ekki fyrir fyrr. Ég vona að nefndin telji það enga vanvirðu við sig að þessi breytingartillaga sé flutt. Það stendur ekki til. Ég veit að nefndin hefur farið yfir þetta mál og reynt að gera það allra besta sem hægt var að gera í því. Þetta er ekki nýtt mál, þetta er ekki vorblóm þessar vikurnar heldur á það sér langa sögu og að baki liggur mikil vinna í þinginu og hjá starfsmönnum ráðuneytisins og einnig þeim faghópum sem að þessu hyggja, en þeir hafa komið sér saman um að reyna að styðja þetta mál. Það hefur nokkuð borið á því í þeim fagstéttum sem hér er um að ræða að þær hafa ekki getað komið sér saman hin síðari árin og jafnvel áratugina. Það er mjög ánægjulegt fyrir íslenskan menningarheim að þar skuli vera að verða breyting á og ég tel að þingið eigi að styðja það eins og hægt er.

Um fornleifaskráninguna sjálfa þarf ekki mikið að tala. Hún er í fyrsta lagi afar nauðsynleg til að við vitum meira um landið, sögu þess og uppruna en ekki síður til að skipulag geti verið sæmilegt á landinu. Hún er einnig mikilvæg fyrir ferðaþjónustu, skólastarf og ýmislegt það annað sem við höfum okkur til fræðslu og ávinnings í þessu góða landi sem við byggjum.