140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, en sá ágreiningur fjallar fyrst og fremst um það að sveitarfélögunum, skipulagsyfirvöldum þykir súrt í broti að þurfa að veita mikið fé á skömmum tíma til að uppfylla lögin. Ég held að það sé enginn ágreiningur um að heppilegast væri að þessi skráning lægi öll fyrir eins og hún gerir meira og minna í grannlöndum okkar. Ég vek athygli á því, um leið og ég þakka mjög skýran vilja nefndarinnar til að halda sig við það að áður en að deiliskipulagi kemur fari þessi vettvangsrannsókn klárlega fram, að það getur verið galli fyrir deiliskipulagið sjálft að þetta liggi ekki fyrir áður, ef það er hugsanlegt. Það er vegna þess að menn vita nokk þegar þeir gera deiliskipulag hvað í því á að vera. Menn gera það vegna ákveðinna framkvæmda eða hugmynda um íbúðabyggð, um athafnasvæði o.s.frv. Það er eðli deiliskipulags að menn fara af stað í það með ákveðnar hugmyndir um hvar það á að vera, sem síðan getur auðvitað breyst eftir ástæðum.

Þess vegna er heppilegast að við stefnum að því að þessi skráning fari fram áður en aðalskipulag er samþykkt eða endurskoðað. Hins vegar höfum við ekki til þess fjárhagslegt bolmagn. Þess vegna er lögð til sú breyting — köllum hana málamiðlun eða sáttahugmynd — að sveitarfélögin geti hagað því eftir samkomulagi sem þau gera við þar til bær yfirvöld, nefnilega Minjastofnun Íslands. Með þeim hætti er komin fullkomin samvinna í þetta samkvæmt áætlun sem gerð er. Ég sé eiginlega ekki af hverju menn ættu að vera á móti því. (Forseti hringir.) En einn af göllunum við frumvarpið eins og það kemur frá ráðherra er sá að óljóst er hvað það þýðir að upplýsingar gefi greinargóða mynd af menningarminjum. Þetta veit enginn hvað þýðir. Það er strax mikill galli.