140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og skil mætavel þær athugasemdir sem hann kemur fram með.

Ástæða þess að nefndin leggur til við 36. gr. að 1. mgr. falli brott er sú að nefndin taldi að ekki yrði hægt fyrir Minjastofnun að halda utan um allar þær rannsóknir sem hugsanlega ættu sér stað. Færu fornleifafræðingar, eins og til var tekið, í göngutúr um landið og teldu að fornminjar væri að finna á einhverju afmörkuðu svæði og héldu áfram að velta fyrir sér og skoða og leita í sögubókum og öðru þess háttar til að kanna hvort um slíkt væri að ræða færu slíkar rannsóknir fram áður en til jarðrasks kæmi og tilkynna þyrfti fundinn til Minjastofnunar. Þetta er fyrsta og síðasta hugsunin. Hins vegar er það kýrskýrt að allar fornleifarannsóknir sem með einum eða öðrum hætti hafa í för með sér jarðrask ber að tilkynna og fá rannsóknarleyfi til að slíkar rannsóknir megi fara fram. Niðurstaða nefndarinnar var að nær ótækt yrði fyrir Minjastofnun að halda utan um skrár af rannsóknum án jarðrasks, hvað þá fylgja þeim eftir.

Hvað varðar hins vegar 40. gr., um skil á minjum, þá kom það fram í nefnd að flestar rannsóknir sem hefðu í för með sér jarðrask tækju mun lengri tíma en eitt ár og það að þurfa að skila inn munum innan árs án þess (Forseti hringir.) að rannsókn væri lokið taldi nefndin að væri of skammur tími og tók tillit til þeirra sjónarmiða (Forseti hringir.) en ítrekaði að Minjastofnun Íslands (Forseti hringir.) tilgreindi hverju sinni (Forseti hringir.) þegar hún veitti rannsóknarleyfi hvenær ætti að skila inn gögnum. (Forseti hringir.) Það var algjörlega skýrt af hálfu nefndarinnar (Forseti hringir.) að skráning gagna og innskil ættu að vera fyrir hendi. Það er hins vegar (Forseti hringir.) spurning um eitt ár eða lengri tíma.

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)