140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar 40. gr., að það er þekkt að þar er ólag á hlutum. Yfirvöld hafa þurft að ganga allhressilega eftir gögnum og í sumum tilvikum ekki fengið þau gögn sem óskað hefur verið eftir.

Engu að síður var það mat nefndarinnar eftir viðræður við fornleifafræðinga og fólk í ráðuneytinu að setja ekki tímamörk heldur hafa rannsóknarleyfið og skil gagna skilyrt af hálfu Minjastofnunar í trausti þess að stjórnsýslustofnun sem veitir rannsóknarleyfi skilgreini á þann hátt sem hún telur skynsamlegast skil gagna miðað við umfang rannsóknarinnar. Það kann að vera að í ljós komi að þessi hugsun nefndarinnar gangi ekki eftir og Minjastofnun verði fyrir, eins og hv. þingmaður nefnir, óþægilegum þrýstingi, þá væntanlega þeirra sem stunda rannsóknir og skila ekki inn eða fá rýmri tíma til innskila gagna, en þá hlýtur það að vera löggjafans að taka málið í sínar hendur að nýju til að breyta því.

Hvað varðar 36. gr. ætla ég ekkert að verja í sjálfu sér þá ákvörðun nefndarinnar að taka þetta út. Það var gert eftir samtöl við m.a. fagmenn á vettvangi með það í huga hvernig stjórnsýslustofnunin ætti að geta haldið utan um fornleifarannsóknir og taldi nefndin skynsamlegt á þessu stigi að fella ákvæðið út. Það kann líka að vera og ég ætla ekkert að draga dul á að hugsanlega sé það rétt hjá hv. þingmanni að það þýði að Minjastofnun nái ekki að halda utan þetta. (Forseti hringir.) Ég ber hins (Forseti hringir.) vegar þá von í brjósti að þetta frumvarp um menningarminjar sé til komið og sett (Forseti hringir.) til að fólk samræmi sig í starfi og sammælist um (Forseti hringir.) að virða lögin og fara eftir þeim þankagangi sem ríkir í lögskýringum nefndarinnar.