140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem hér er rætt er á margan hátt mjög áhugavert og sérstaklega ef maður horfir til þeirra áherslna sem fram hafa koma í umræðunni um málið. Hér takast á ýmis sjónarmið. Annars vegar eru mismunandi áherslur þeirra sem tala mikið fyrir því að hafa allt eftirlit með þessum mikilvæga málaflokki á einum og sama stað, undir ríkinu, og hins vegar áherslur þeirra sem vilja fara dálítið aðra leið og hafa meira frjálsræði í þessu og hafa í rauninni þá sýn að sem flestir geti starfað í þessu á eigin forsendum.

Í annan stað sjáum við líka átakalínur á milli þeirra einstaklinga sem í þessum málaflokki vinna varðandi stöðu sína í þessum þætti menningarmála á Íslandi, fornleifarannsóknum. Það eru einnig átök þeirra sem hafa valið sér þetta að lífsstarfi og áhugamáli við að þurfa að fella sig að þeirri reglusetningu sem hið opinbera vill setja á þessum sviðum. Það er því hægt að taka umræðu um þetta mál út frá mismunandi sjónarhornum og gefur okkur fullt tækifæri til að ræða þetta vel og ítarlega.

Það ber nokkuð á hörðum átökum í þessu milli faghópa og innan faghópa, og þá á ég ekki eingöngu við það ágæta fólk sem vinnur við fornleifarannsóknir heldur einnig þá sem vinna í þessum efnum af hálfu hins opinbera í einstökum fyrirtækjum. Það þarf að kappkosta við þá lagasetningu sem tekur á þessum málum að gæta þess að okkur beri ekki af þeirri leið sem mörkuð hefur verið í þessum efnum, þ.e. að við höfum að leiðarljósi að vinna að minjavernd og menningarminjum á þann hátt að metnaður okkar sé þar í öndvegi og við gerum menningarsögu þjóðarinnar sem hæst undir höfði.

Það sem ég hef heyrt af þessari umræðu utan þingsalar gefur mér ástæðu til að taka undir þau sjónarmið sem vara við því að umgangast fornleifar, sem rætt er um sérstaklega í 16. gr. þessa frumvarps, á þann hátt að það geti gefið tilefni til þess að þær verði ekki metnar sem sá mikilvægi hluti af menningarsögu þjóðarinnar sem þær eru til jafns við þjóðsögur, aðrar skráðar eða ritaðar heimildir eða aðra þætti. Það má aldrei verða. Ég tel fulla ástæðu til að gefa gaum þeim viðvörunarorðum sem hafa komið fram um 16. gr. þessa frumvarps, sem er sú grein sem mest hefur verið rædd við þessa umræðu og lýtur að skráningu vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda. Það er ljóst að áherslan sem þar er sett í frumvarpinu stafar af góðum huga, vænti ég, bæði til þeirra sem þurfa að bera kostnað af þessu og ekki síður til viðfangsefnisins. En það kom meðal annars fram hér í andsvörum og ræðum fyrr í þessu máli að menn setja kostnaðarþáttinn töluvert fyrir sig við framsetningu á 16. gr. frumvarpsins eins og hún liggur fyrir. Við höfum fengið að heyra athugasemdir Sambands íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila sem þetta snertir og ég legg áherslu á að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því. Það má þó ekki koma þannig fram að við séum að setja fornleifaskráninguna á einhvern hátt til hliðar. Ég held að það sé ekki meining manna.

Ég held að meiningin með þessu frumvarpi, eins og ég heyrði hv. framsögumann þessa máls, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, setja hana fram, hafi verið sú að skilgreina betur ábyrgð hins opinbera í þessum málaflokki en áður var, samræma lög um menningarminjar öðrum lögum sem sett hafa verið á sviði menningarmála og lúta að Þjóðminjasafni Íslands og safnalögum sem taka gildi 1. janúar 2013.

Það er ósköp eðlilegt að það séu átök um innihaldið í frumvarpi sem þessu þar sem við erum með sambland af opinberum áhersluþáttum annars vegar og hins vegar starfsgrein þar sem einstaklingar hafa kosið sér hvort tveggja undir eigin merkjum eða þá innan opinberra stofnana lífsstarf. Sem betur fer á landið núna ágætlega margt ungt, vel menntað og afar metnaðarfullt fólk sem hefur haslað sér völl á þessu sviði og hefur ákveðið að gera þetta að lífsstarfi sínu og ber að fagna slíkum áhuga og ekki síður þegar við uppskerum launin fyrir þá getu sem liggur að baki þessu starfi. Það er í raun ómetanlegt að fólk kjósi að helga því krafta sína. Það þarf því að kappkosta að mæta ekki frumkvæði og vilja þessara einstaklinga þannig að þeim finnist að sér þrengt á einhvern hátt með lagasetningunni. Ég þóttist heyra það í umræðunni að það væri ekki meiningin og kýs að túlka það svo.

Ég tek hins vegar undir þau varnaðarorð sem lúta að umgengninni um fornleifar, þ.e. krafan um skráningu þeirra er afskaplega góð og gild. Staðan er hins vegar sú að við þurfum að taka tillit til kröfunnar og viljans um að eiga góða vinnu, eiga mikilsverðar upplýsingar um fornleifarnar, sem við vitum að kostar, og horfast síðan í augu við þann veruleika að fjármunir eru takmarkaðir, sérstaklega hjá þeim skipulagsyfirvöldum sem eiga samkvæmt löggjöfinni að fara með þessi mál, en kostnaðurinn liggur hjá sveitarfélögunum sem fara með skipulagsvaldið. Ég held að þetta mál eigi að geta gefið ágætt tilefni til að ræða það hver eigi að bera allan kostnaðinn við það gríðarlega mikilvæga verk sem skráning og öflun vitneskju um fornleifar á Íslandi er. Það er ekkert einboðið að það þurfi að vera ríkissjóðurinn eða sveitarsjóðurinn, við eigum alveg eins að geta séð það fyrir okkur að þetta verkefni sé í meira mæli kostað og sýslað með af einkaaðilum. Það væri óskandi að við ættum meiri umræðu um það í tengslum við þetta frumvarp. Hins vegar þarf, og ég get alveg fallist á þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. framsögumanni þessa máls, að skilgreina ábyrgð ríkisins í þessum efnum og tengja hana annarri lagasetningu á þessu sviði, ekki síst eftir þá miklu vinnu sem lögð var í endurskoðun laga um Þjóðminjasafn Íslands og síðan safnalögin.

Það er þó ekki hægt að láta fram hjá sér fara þær athugasemdir sem koma frá einstaklingum sem vinna í geiranum og einnig varnaðarorð frá einstaka sveitarstjórnarmanni sem hefur á þessu mikla þekkingu og reynslu. Það vekur mér nokkurn ugg ef ekki getur náðst meiri samstaða um lagasetninguna milli þeirra aðila sem að verkinu koma. Það kann að vera misskilningur, ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem hér leggur fram sína vinnu, og það kann vel að vera að búið sé að eyða mismunandi skoðunum sem uppi eru í þessum efnum og væri það vel.

Ég vek athygli á því að við umræðuna fyrr í þessu máli kom fram breytingartillaga frá hv. þm. Merði Árnasyni sem snýr einmitt að 16. gr. sem mest hefur verið rædd hér. Ég get tekið undir þau grunnsjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmanni í þeim efnum, þ.e. mikilvægi þess að skráning fornleifanna fari fram fremur en að það sé bara samantekt upplýsinga. Nú liggur fyrir að það er til aðalskipulag af öllum sveitarfélögum landsins vænti ég og ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélaga kveða á um að þar skuli vera greinargerð um fornleifar innan marka sveitarfélagsins. Þar af leiðandi ætti að mínu mati að vera tiltölulega auðvelt að gera eitthvert gróft mat á því hvað skráning fornleifanna kosti. Tillaga hv. þm. Marðar Árnasonar gerir hins vegar ráð fyrir því að Minjastofnun Íslands fái heimild til að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um að dreifa kostnaðinum við skráninguna á lengri tíma. Ég leyfi mér að segja að ég tel að hugsunin í þessari tillögu sé góð en hún sé þannig orðuð að hún sé í raun ekki tæk til afgreiðslu, hún gengur að mínu mati ekki upp. En eftir andsvör við hv. þingmann í morgun held ég að hugsunin í tillögunni sé þess eðlis að ég geti fallist á hana en ég get ekki samþykkt tillöguna eins og hún er lögð hér fram.

Í raun má segja að breytingartillaga hv. þm. Marðar Árnasonar sé í grunninn algjörlega samhljóma 16. gr. frumvarpsins eins og hún kemur frá nefndinni, þ.e. að gefa svigrúm til þess að sú skráning sem á að fara fram geri það, það geti bara tekið lengri tíma. Ég hefði álitið að ef um ágreining hefur verið að ræða í nefndarstarfinu að þessu leytinu til hefði hv. þingmaður átt að geta eytt honum með því að koma fyrr fram með áherslur sínar og ræða þær í nefndinni með það að markmiði að reyna að ná samstöðu um þá leið að gera skráningu fornleifa hærra undir höfði en ég tel að 16. gr. inniberi.

Að öllu samanlögðu tel ég því að þetta frumvarp sé almennt til bóta og raunar nauðsynlegt út frá fyrri vinnu á sviði menningarmála og löggjafar um þau. Ég er þó þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að búa svo um hnútana að einstaklingar og fyrirtæki á þessu sviði telji ekki að sér vegið með þeirri lagasetningu sem hér gengur fram. Það væri mjög miður ef við þyrftum á grunni fyrirhugaðrar lagasetningar að horfa upp á að það yrði afturkippur í því metnaðarfulla og góða starf sem á þessu sviði er unnið í landinu og hefur verið unnið á síðustu mörgum árum og áratugum.