140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[12:17]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því. Ég er búinn að rýna í tillöguna og hv. þm. Mörður Árnason hafði samband við mig fyrr í vikunni og greindi mér frá þeim vangaveltum sínum hvort það þyrfti að bæta þessu við til að svigrúmið til skráningar væri tryggt og tekin af öll tvímæli um það. Hann gekk úr skugga um að þetta hefði ekki áhrif á aðrar greinar frumvarpsins þó að þessari grein yrði breytt sem svo stendur hér.

Ef það er afdráttarlaust frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að þetta sé ekki íþyngjandi með neinum hætti fyrir þau heldur sé í rauninni verið að tryggja markmið sem fram kemur í frumvarpinu með enn þá afdráttarlausari hætti held ég að það væri í sjálfu sér að meinalausu og jafnvel til bóta að samþykkja þessa breytingartillögu frá hv. þingmanni. Við þurfum bara að skoða það ef það er skilningur Sambands íslenskra sveitarfélaga að svo sé ekki. Mér skilst að svo sé. Ég ítreka að það var heilmikill ágreiningur meðal fornleifafræðinga um þetta mál þegar það kom fram. Við gerðum alls ekki lítið úr honum í nefndinni heldur tókum hann þvert á móti til mjög rækilegrar umfjöllunar. Þetta er mikið mál og víðfeðmt og flókið að halda utan um en hv. framsögumanni tókst mjög vel upp eins og ég nefndi hérna áðan. Hún skilaði þessu af sér með miklum sóma og ég held að við höfum náð enn þá betri árangri þegar við tókum þetta aftur inn á milli umræðnanna. Við leggjum til þó þetta margar breytingar á frumvarpinu og mætum þar með mörgum af helstu sjónarmiðum þeirra sem höfðu um þetta mestu efasemdirnar, fornleifafræðinganna sjálfra.

Hvað varðar tillöguna skulum við bara skoða það og ræða við sambandið hvort þetta hafi íþyngjandi áhrif eða sé árétting á því sem fram kemur þannig að það sé afdráttarlausara.