140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja máls á því í byrjun að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans gerðu þær athugasemdir í gær að það væri til lítils að vera að ræða þetta mál og önnur hér, með því væri verið að tefja störf þingsins og minni hluti þingsins væri í málþófi. Það er ekki rétt. Það er sjálfsagt að halda því til haga að hér hefur verið boðið upp á að greiða fyrir þingstörfum ef samkomulag næst um þinglok, en á meðan svo er ekki er sjálfsagt að halda opnum þessum málum til að ræða þau ítarlega.

Það hafa orðið miklar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs í gegnum árin. Þetta var nú kölluð Húsnæðismálastofnun ríkisins þegar ég var að kaupa mína fyrstu fasteign fyrir margt löngu síðan. Þá var þetta eiginlega eina stofnunin ásamt lífeyrissjóðunum sem lánaði til húsnæðiskaupa, bankar voru almennt ekki með fasteignalán eins og tíðkast í dag.

Í gegnum tíðina hefur þeirri stefnu verið fylgt hér á landi sem ég held að hafi verið mikilvæg og henni þurfi að halda til haga og auka veg hennar í framtíðinni, það er séreignarstefnan. Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hana á stefnuskrá sinni. Það segir meðal annars í ályktun síðasta landsfundar okkar að Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á séreignarstefnu í húsnæðismálum, með henni er fólki gert kleift að búa í eigin húsnæði með það að markmiði að treysta fjárhagslegt sjálfstæði þess með tilheyrandi eignamyndun og auknum ráðstöfunartekjum. Það verði meðal annars gert með aukinni atvinnu, lækkun skatta, lækkun vaxta og minni verðbólgu. Verðbólgufjandinn hefur oft verið laus hér á landi með tilheyrandi afleiðingum, meðal annars fyrir eignamyndun fólks, en þó held ég að þegar á heildina er litið hafi þetta tekist nokkuð vel. Við höfum náð að uppfylla í gegnum tíðina markmiðið um gott atvinnustig. Við höfum búið við gott og hvetjandi skattumhverfi, sérstaklega þau ár áður en þessi ríkisstjórn kom til valda. Þannig aðstæður þurfum við að búa til aftur svo að til verði hvati fyrir almenning að búa í eigin húsnæði og stuðla þannig að eignamyndun fjölskyldna í landinu.

Á sínum tíma var ákveðið að koma svokallaðri verðtryggingu á. Verðbólgan hefur verið ákveðið vandamál og verðtryggingin var hugsuð til þess að reyna að tryggja eigur fólks og lán og í sjálfu sér er hún ekki alslæm þótt vissulega hafi hún á tímum verið erfið og kannski ekki síst núna eftir hrun þar sem ansi mikið verðbólguskot hefur komið illa við skuldug heimili og skulduga einstaklinga.

Það er samt ekkert óvanalegt að þeir sem hafa lifað í þessu fjárfestingarumhverfi, eins og t.d. mín kynslóð sem eignaðist sitt fyrsta húsnæði um það leyti sem verðtryggingu var komið á, hafi átt mismunandi mikið eigið fé í eignum sínum vegna verðbólguáhrifa og áhrifa verðtryggingar. Í heildina litið hefur það jafnað sig út með ágætri stöðu í gegnum tíðina. En það sem breyttist hjá okkur í kringum árin 2004, 2005 var að farið var að lána mun hærra hlutfall, lánshlutfall í fasteignaviðskiptum varð hærra. Það er kannski ekkert óeðlilegt að reyna að færa okkur þannig til samræmis við þær þjóðir sem við berum okkur helst saman við, en svigrúmið til þess að taka svona verðbólgubreytingum varð minna fyrir bragðið. Það hefur komið illa við fólk, sérstaklega eftir hrunið. Þetta er auðvitað mikilvægt atriði núna þegar val lántakanda er að aukast og meira um að óverðtryggð lán séu í boði. Við sjáum núna að Íbúðalánasjóður stenst ekki þá samkeppni sem er á lánamarkaði, býður ekki slík lán, og fasteignalán eru núna að færast í auknum mæli til fjármálastofnana sem bjóða upp á óverðtryggð lán. Margir hafa varað við þessari þróun og fólk beðið um að reyna að kynna sér vel hvaða afleiðingar þetta getur haft. Stöðugleiki þarf að vera viðvarandi og það á auðvitað að vera meginmarkmið stjórnvalda að treysta stöðugleikann. Það er nú ekki hægt að herma upp á þau stjórnvöld sem nú sitja.

Við verðum að auka fjármálalæsi fólks þannig að almenningur betur geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar mismunandi lántaka getur haft í för með sér. Sjálfstæðisflokkurinn ályktaði einmitt um þetta á síðasta landsfundi þar sem hann taldi mikilvægt að bæta sérstaklega fjármálalæsi ungs fólks í gegnum skóla og heimili. Þetta hefur nokkuð verið í umræðunni og við þurfum að efla þessa þekkingu strax á grunnskólastigi. Það er eðlilegt að byrja á þessu á seinni hluta grunnskólastigs.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað veg Íbúðalánasjóðs svo mikinn og að hafi viljað opna þessa starfsemi og færa til hins almenna markaðar. Það hefur verið ákveðinn grunntónn í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þó hafa varnaglar verið slegnir. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks til margra ára stóðu menn vörð um að almenningi væri boðinn nokkuð jafn aðgangur að lánum til íbúðakaupa.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins árið 2011 ályktaði um þetta. Þar segir, með leyfi forseta:

„Landsfundur Sjálfstæðisflokksins krefst þess að skipan húsnæðis- og neytendalána verði með svipuðum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi. Tryggja verður virka samkeppni á lánamarkaði vegna húsnæðiskaupa, sem getur leitt til að vextir og gjaldtaka lánastofnana verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum.“

Þetta er sá grunntónn sem flokkurinn slær, en jafnframt segir flokkurinn í samþykktum sínum á fyrrnefndum landsfundi:

„Enn sem fyrr byggir Sjálfstæðisflokkurinn á þeirri meginstefnu að einstaklingar eigi þess kost að rísa frá fátækt til velmegunar á grundvelli eigin framtakssemi og dugnaðar. Framlag samfélagsins til þess á meðal annars að vera með þeim hætti að sjá til þess að hagkvæm húsnæðislán séu jafnan í boði fyrir neytendur.“

Við vitum af fenginni reynslu að sjálfstæðar fjármálastofnanir uppfylltu ekki þessa þörf og uppfylltu ekki þetta skilyrði Sjálfstæðisflokksins. Á meðan er það samfélagsins og ríkisins að sjá til þess að allir þjóðfélagsþegnar sitji við sama borð, sama í hvaða póstnúmeri þeir búa.

Við þekkjum öll dæmi þess þegar bólan var hér á sínum tíma og bankarnir komu með miklum látum inn á fasteignalánamarkaðinn, að fólki utan af landi, búsett á vissum svæðum, var ítrekað hafnað um lán til íbúðakaupa vegna þess að bankarnir töldu verðmæti eignanna ekki standa undir þeim lánum sem til þurfti. Þar skipti engu máli greiðslugeta viðkomandi einstaklinga. Við slíkt má ekki búa vegna þess að öll viljum við sjá landið dafna í byggð. Við viljum snúa við þeirri þróun í byggðamálum sem orðið hefur. Það gerum við með því að skapa aukin atvinnutækifæri um allt land, auka verðmætasköpun, efla samgöngur og menntakerfi. Við sjáum stórkostlegan árangur af því víða úti á landi hvernig hefur til dæmis tekist til með fjölgun menntastofnana á menntaskólastigi og hvaða þýðingu það hefur að unga fólkið geti verið heima og stundað framhaldsnám fyrstu árin á heimaslóðum. Þetta er þróun sem við viljum sjá gerast í ríkari mæli. Grundvöllur að því er að fólk hafi jafnan aðgang að íbúðalánum, hvar sem það býr.

Í þessu frumvarpi er lagt til að Íbúðalánasjóður geti rekið leigufélag með þær fasteignir sem hann hefur þurft að leysa til sín á nauðungaruppboðum eða með samkomulagi, sérstaklega eftir hrunið. Það er auðvitað sláandi hversu margar eignir eru nú á vegum sjóðsins. Í febrúarmánuði 2012 átti sjóðurinn 1.751 fasteign og bókfært virði þeirra var um 22,5 milljarðar í árslok 2011. Rúmlega 700 eignir eru í útleigu af þessum 1.750 fasteignum. Ef þetta leigufélag á að verða að veruleika þarf að vanda mjög til verka.

Það er ástæða til að minnast á breytingartillögu sem hv. þm. Eygló Harðardóttir leggur fram með þessu frumvarpi um að aðskilja þennan rekstur að öllu leyti frá annarri starfsemi sjóðsins. Þarna er um að ræða rekstur á samkeppnismarkaði og það getur haft miklar afleiðingar. Það er algjör lágmarkskrafa að þetta leigufélag lúti lögmálum hins almenna markaðar vegna þess að staða þess getur auðvitað verið gríðarlega sterk með allar þessar fasteignir sjóðsins um allt land á sínum snærum.

Grundvallaratriði hjá þessu opinbera fyrirtæki á þó að vera að reyna að vinna að úrræðum fyrir þær ólánssömu fjölskyldur sem hafa misst fasteignir sínar til sjóðsins og reyna að gera ráðstafanir og fara leiðir til að fólk geti eignast þær eignir aftur. Það kemur fram í frumvarpinu að flestir af þeim sem nú þegar leigja fasteignir af sjóðnum hafa lent í þeirri ógæfu að missa eignirnar. Það þarf auðvitað að vinna eins mikið og hægt er að því að búa til úrræði fyrir þetta fólk svo að það geti eignast aftur heimili sín og fengið það öryggi sem fylgir því að eiga öruggt skjól.

Ég vil nota tækifærið og minnast á breytingartillögu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur lagt fram í þessu máli, reyndar sambærilega við frumvarp sem hann lagði fyrr fram á þingi, þar sem hann leggur til að Íbúðalánasjóði verði skylt að fara svokallaða landsbankaleið í því að mæta skuldugum heimilum. En Landsbankinn er eins og við vitum ríkisstofnun. Rökin fyrir þessu eru þau að ríkið eigi ekki að bjóða upp á mismunandi afgreiðslu og meðhöndlun þeirra sem skulda og Íbúðalánasjóður eigi að bjóða upp á sambærileg úrræði og Landsbankinn hefur gert. Undir þetta hafa stjórnarliðar tekið. Ég vil nefna sérstaklega hv. þm. Helga Hjörvar í því sambandi, en hann sagði í ræðu á þingi, með leyfi forseta:

„Ég árétta það sjónarmið að hvernig sem útfærslan er sé það bara hið eðlilega grundvallarsjónarmið að Íslendingar eigi að geta treyst því, hvort sem þeir skipta við ríkisbankann Landsbankann eða ríkisbankann Íbúðalánasjóð, að þeir njóti sambærilegra kjara. Þó að þau þurfi ekki að vera nákvæmlega eins að öllu leyti ættu þau að vera sambærileg.“

Sambærileg rök komu fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem sagði fyrr á þessu ári:

„Það eru lítil rök fyrir að hafa ríkisrekinn íbúðalánasjóð ef hann getur ekki staðið undir því að mæta fólki í vanda með sambærilegum hætti og fyrirtæki á markaði.“

Ég held að breytingartillaga hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sé allrar athygli verð. Verði þetta mál afgreitt núna á lokadögum þessa þings eða á sumarþingi seinna í sumar er full ástæða fyrir þingmenn að nota tækifærið og setja þessar reglur um lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs.