140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:53]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það lýsir því náttúrlega að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á þessum málum. Ég veit að hann þekkir líka vel til þessa málaflokks.

Frumvarpið gengur út á að opna heimildir fyrir Matvælastofnun til þess að fá aðgang að farmskrárupplýsingum farmflytjenda til þess einmitt að geta fylgst með því hvað þær hafa að geyma og tryggja matvælaöryggi — ég vil ekki segja fæðuöryggi, frekar matvælaöryggi — í þeim skilningi að ekki sé verið að flytja til landsins vörur sem gætu haft afleiðingar fyrir heilsufar okkar og kannski smitsjúkdóma í búfé og þess háttar. Hugsunin var sú að með því að opna þessar heimildir fyrir Matvælastofnun, sem í dag eru bara heimildir fyrir tollinn, hefði Matvælastofnun aðgang að þessum upplýsingum og gæti gengið úr skugga um hvort í þessum förmum væru til dæmis matvæli sem gætu haft í för með sér smithættu eða þess háttar hluti.

Þegar farið var að skoða þetta betur með tollyfirvöldum kom í ljós að jafnvel þó að þessar heimildir væru opnaðar eins og frumvarpið kvað á um mundi það ekki duga vegna þess að upplýsingarnar í farmskránum innihéldu ekki þær upplýsingar sem dygðu til að komast að því nákvæmlega um hvað væri að ræða í einstökum förmum. Það varð því niðurstaða nefndarinnar á sínum tíma að opna þessar heimildir betur þannig að Matvælastofnun hefði meiri aðgang að þessum upplýsingum en fólust í upphaflega frumvarpinu. Það er það sem Persónuvernd rekur hornin í og telur að gangi of langt gagnvart persónuverndarlögum. Af þeim ástæðum varð það niðurstaða nefndarinnar, eftir að hafa skoðað álit Persónuverndar sem gert er grein fyrir í nefndarálitinu, að skynsamlegast væri að draga til baka fyrri áform til að það stangaðist ekki á við persónuverndarlögin þrátt fyrir að í því fælist síðan takmörkun á því eftirliti sem Matvælastofnun ella (Forseti hringir.) hefði fengið ef óbreytt breytingartillaga við 2. umr. hefði náð fram að ganga.