140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[12:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mikilvægt er að tryggja að farið sé eftir þeim reglugerðum og lögum sem Persónuvernd setur þegar við horfum á tilganginn með frumvarpinu og því ágætt að sjá að nefndin geri þarna breytingu til að bregðast við því á ákveðinn hátt. Við hljótum að fagna því að verið sé að auka eftirlit með því að ekki berist hingað vörur eða matvæli sem á einhvern hátt geta reynst hættuleg matvælaframleiðslu okkar, almenningi eða þjóðinni. Við hljótum því að velta því fyrir okkur í því samhengi hvaða þörf er á reglum sem þessum ef það er vilji einhverra að opna fyrir óheftan innflutning á matvælum og slíku frá Evrópusambandinu, sem hefur heyrst hér, eða jafnvel innflutning á gæludýrum og öðrum skepnum (Forseti hringir.) sem gætu borið með sér sjúkdóma. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna verið er að hræra í þessum hlutum núna.