140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:04]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig hvort þessi heimild mundi ná líka til upplýsinga um kjarnfóður og áburð svo eitthvað sé nefnt. Ég vek athygli á því að þetta er almenn heimild Matvælastofnunar til aðgangs að farmskrárupplýsingum úr upplýsingakerfum tollyfirvalda sem ég hygg að nái þá örugglega til bæði kjarnfóðurs og áburðar.

Síðan vek ég athygli á því og minni á að í þeirri umdeildu matvælalöggjöf sem við settum fyrir tveimur árum eða svo var opnuð heimild til þess fyrir Matvælastofnun að upplýsa um efnainnihald í til dæmis áburði og gera þannig neytendur meðvitaða um hvað væri í þeim áburði sem verið væri að flytja inn. Þá væri hægt að stöðva innflutning á slíkum áburði ef ástæða væri til.

Þessar heimildir voru ekki til staðar. Þess vegna hafði á sínum tíma hvorki Matvælastofnun né sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið heimild til að gefa þessar upplýsingar. Nú eru þessar lagaheimildir hins vegar í matvælalöggjöfinni frá því á árinu 2010, að ég hygg.