140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir yfirferðina á nefndarálitinu og vinnu hans sem framsögumanns í þessu máli og vil nota tækifærið og lýsa yfir að sá sem hér stendur, fulltrúi framsóknarmanna í atvinnuveganefnd, er á nefndarálitinu og styður þessa niðurstöðu. Ég vildi inna hv. þingmann eftir frekari upplýsingum um það hvort hér sé ekki fyrst og fremst verið að bregðast við því sem við höfum séð í starfsemi Matvælastofnunar á liðnum árum. Þetta er ný stofnun og er að feta ný skref, ekki síst í nýju umhverfi matvælalöggjafar Evrópusambandsins og tengdum atriðum, til að mynda er varðar sáðvöru og áburð. Það hafa komið upp vandræðamál sem Matvælastofnun og reyndar aðrar stofnanir ríkisins hafa höndlað mjög illa. Ýmist hafa þau verið vanbúin og mál þess vegna komið upp eða stofnanirnar hafa, í það minnsta að mínu mati, brugðist við í næsta máli með meira offorsi en eðlilegt mætti teljast. Þess vegna er mjög eðlilegt eins og hv. þingmaður kom inn á að umræðan í nefndinni væri um það að tækin væru nauðsynleg fyrir Matvælastofnun.

Snýst þetta ekki meðal annars um eftirlit með áburði og reyndar öðrum vörum á leiðinni til landsins? Þegar Matvælastofnun hefur upplýsingar um hvað er að koma er stofnunin komin með forskot áður en varan fer í dreifingu og eðlilegra væri að menn hefðu eftirlit með því en að þurfa að innkalla vöruna með tilheyrandi kostnaði og tjóni fyrir alla. Gæti þingmaðurinn aðeins farið yfir þennan þátt málsins? Svo ætla ég að víkja aðeins að Persónuvernd í seinna andsvari mínu.