140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:08]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður rifjar hér upp. Það komu upp slík tilvik sem lutu sérstaklega að innihaldi í áburði. Við vitum hvernig þau mál þróuðust. Það var fluttur inn áburður á sínum tíma sem innihélt snefilefni sem voru talin óæskileg. Eins og við munum var hins vegar mat Matvælastofnunar á þeim tíma að það væri ekki í því magni að ástæða væri til að ætla að yrði sá áburður notaður einu sinni hefði hann nokkur varanleg skaðleg áhrif og þess vegna varð það niðurstaða Matvælastofnunar, kannski með vísan til meðalhófs, að ekki væri skynsamlegt að innkalla þennan áburð af þeirri ástæðu. Eins og við þekkjum síðan öll tekur langan tíma að panta áburð, sérstaklega núna þegar við erum ekki með innlenda áburðarframleiðslu. Bændur panta áburð snemma vors. Þegar hann er síðan kominn, jafnvel búið að bera hann á túnin, er kannski ekki auðvelt við að eiga.

Þetta var hið versta mál. Það sem hefur þó gerst, eins og ég nefndi áðan, er að það hafa verið sett ný matvælalög sem meðal annars ná til áburðar, kjarnfóðurs, sáðvöru og þess háttar sem ætti að tryggja að Matvælastofnun hafi heimild til að birta opinberlega efnainnihald þessara vara og gera kröfu til þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir áður en vörunum verður dreift. Það ætti út af fyrir sig að gera það að verkum að atvik eins og þau sem við erum að tala um heyrðu fortíðinni til. Það var hins vegar ekki heimilt, hvorki lagalega né í reglugerð, til að birta þessar upplýsingar á sínum tíma. Þar stóð hnífurinn í kúnni.

Auðvitað erum við öll síðan sammála um að við þurfum að fylgjast mjög vel með þessum málum. Það er sú viðleitni sem kemur fram í þessu frumvarpi, að opna heimildina fyrir Matvælastofnun til aðgangs að þessum upplýsingum úr farmskrám. Athuganir okkar í nefndinni hafa leitt í ljós að þessi aðgangur verður ekki nægjanlegur. Það er galli en þetta er hins vegar skref í rétta átt. Ég hef þegar gert grein fyrir því af hverju við treystum okkur ekki til þess að ganga lengra (Forseti hringir.) en við gerum í þessari breytingartillögu hér.