140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

nauðungarsala, aðför, meðferð einkamála og fjármálafyrirtæki.

716. mál
[13:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel þetta mjög þarfa og góða umræðu sem við þurfum að taka. Ég mundi fagna því ef fjárveitingavaldið sameinaðist um að auka fjármuni til gjafsóknar vegna þess að þær viðmiðunarupphæðir sem stuðst er við eru allt of lágar. Þær byggja á reglugerð. Ég breytti reglugerð í þá veru að hækka viðmiðunarmörkin. Þau þyrftu að hækka enn þá meira, en áður en farið er út í þessa breytingu þurfum við að taka umræðu um skilgreiningar eins og hv. þingmaður nefndi.

Ég vil nefna að þau mál sem tekið er á í þessu lagafrumvarpi og eru mörg mjög til bóta hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu og í samstarfi við réttarfarsnefnd. En þessu atriði vildi ég gjarnan koma til skila við umræðu málsins.