140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[13:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (sparisjóðir).

Nefndin fékk málið til umfjöllunar og hefur fengið til sín fjölmarga umsagnaraðila auk þess sem haft var samband við og spjallað við sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið vegna málsins. Nefndin fékk skriflegar umsagnir frá nokkuð mörgum aðilum og ég held að samantekið sé hægt að segja að ekki eru gerðar miklar athugasemdir við þetta frumvarp og að það hefur vakið tiltölulega mikla ánægju.

Markmið frumvarpsins er að styrkja rekstrargrundvöll sparisjóðakerfisins sem átt hefur undir högg að sækja undanfarin ár. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að allir stærstu sjóðir landsins hafi hætt starfsemi sinni og þeir sem eftir standi hafi flestir þurft að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu með aðkomu ríkisins. Til að auðvelda sjóðunum að ráða bót á þörf sinni fyrir aukið eigið fé er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að reka sjóðina í formi hlutafélags. Hugtakið sparisjóður verður þar af leiðandi ekki lengur bundið við sérstaka tegund sjálfseignarstofnunar heldur verður það samheiti yfir tiltekna gerð fjármálafyrirtækja sem ýmist verði reknar í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags en beri um leið að takmarka starfsemi sína við inn- og útlánastarfsemi. Jafnframt er það nýmæli að í lögunum er skilgreint að að minnsta kosti 5% hagnaðar liðins árs skuli renna til skilgreindra samfélagslegra verkefna á starfssvæði sjóðsins.

Það kemur fram í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að með aðkomu nýrra fjárfesta að sjóðunum kunni eiginfjárgrundvöllur þeirra að styrkjast og rekstrarhæfi að batna sem hefði jákvæð áhrif á virði eignarhluta ríkissjóðs sem hann mun náttúrlega á endanum reyna að losa sig við, þ.e. selja.

Þá er lagt til að bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármálafyrirtæki, nánar tiltekið VI. bráðabirgðaákvæði, verði framlengt til loka næsta árs. Ákvæðið var lögfest með setningu neyðarlaganna og það varðar inngripsheimildir Fjármálaeftirlitsins við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði. Á meðan framtíðarskipan þessara mála hefur ekki verið ákveðin á vettvangi Evrópusambandsins telur efnahags- og viðskiptaráðuneytið þörf á að ákvæðið haldi gildi sínu enn um sinn.

Eins og ég hef þegar rakið má almennt segja um frumvarpið að meiningin með því ef það verður að lögum sé að styrkja rekstrargrundvöll sjóðanna. Þar verður horfið formlega frá því að sparisjóðir geti valið sér rekstrarform. Eftir þetta geta þeir verið hvort sem er sjálfseignarstofnanir eða hlutafélög. Eins og fram kemur í nefndarálitinu og athugasemdum við frumvarpið telja frumvarpssmiðir að það að þau verði á hlutafélagaformi sé mikilvæg forsenda til þess að hægt sé að styrkja eiginfjárgrunninn og fá fólk til að leggja peninga í sparisjóðina Jafnframt auðveldar það sölu á hlut ríkisins.

Þær takmarkanir sem eru settar á sjóðina, að starfsheimildir taki eingöngu til inn- og útlánastarfsemi, hafa vissar skorður í för með sér. Það komu fram skiptar skoðanir um hvort ákvæði frumvarpsins þrengdu óeðlilega að starfsheimildum sjóðanna með tilliti til samkeppnislaga og möguleika til tekjuöflunar. Flestir töldu jákvætt að heimildir þeirra yrðu takmarkaðar við að sinna hefðbundinni sparisjóðaþjónustu. Í ljósi reynslu telja menn að sérstaða sjóðanna í samkeppnislegu tilliti hafi byggst á skilningi sjóðanna á þörfum og innviðum þess samfélags sem þeir starfa í. Mikilvægi sjóðanna fyrir landsbyggðina er þar af leiðandi ótvírætt enda þótt erfiðleikar í rekstri eigi að gefa þeim tilefni til hagræðingar, eftir atvikum með því að sameinast öðrum sparisjóðum. Ríkið getur einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að lækka opinberar álögur sem sjóðirnir eiga verulega erfitt með að standa undir. Sem dæmi má nefna sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Í nefndarálitinu er fjallað ítarlega um að samfélagslegt hlutverk sjóðanna verði að vera skilgreint en vissar takmarkanir koma fram í 5. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að þegar sparisjóður sem sjálfseignarstofnun rennur saman við annað fjármálafyrirtæki geti hlutur stofnfjáreigenda í endurgjaldi ekki orðið hlutfallslega hærri en sem nemur hlutfalli stofnfjár af eigin fé sparisjóðsins. Þar eru því settar takmarkanir.

Endurgjaldið fyrir óráðstafað eigið fé má aðeins vera í formi peninga eða skuldabréfs og skal óháður aðili meta hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt með tilliti til þess sem kemur í hlut stofnfjáreigenda. Matið sætir staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Þá er stjórn hins yfirtekna sparisjóðs heimilt að ráðstafa endurgjaldinu í stað þess að stofna sjálfseignarstofnun um að því verði beint til samfélagslegra verkefna að fenginni staðfestingu ráðherra sveitarstjórnar- og fræðslumála sem munu þurfa að taka afstöðu til þess hvort ráðstöfunin samrýmdist samþykktum viðkomandi sjóðs.

Við samruna tveggja sparisjóða sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir skal óráðstafað eigið fé beggja renna saman, þó með þeim fyrirvara að sé óráðstafað eigið fé annars neikvætt verði að jafna það áður en til samrunans kemur. Fyrirvarinn virðist styðjast við þau rök að ekki sé verið að nota óráðstafað eigið fé eins sparisjóðs til að bæta stofnfjáreigendum annars sparisjóðs stofnfé sem hefur tapast að fullu eða að hluta.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að þeir sparisjóðir sem þegið hefðu eiginfjárframlag frá ríkinu á grundvelli neyðarlaganna hefðu þurft að sæta kröfu um hærra eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum en sparisjóðir sem ekki væru í eigu ríkissjóðs. Þessar mismunandi kröfur gera það að verkum að staða sjóðanna er ójöfn og geti torveldað ferli sameiningar. Fjármálaeftirlitið benti á að hinar auknu kröfur væru tímabundnar og hefðu verið samdar við sérstakar aðstæður til að verja hagsmuni ríkisins sem eiganda.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum. Ég ætla ekki að rekja þær tillögur hérna en mest eru þær tæknilegs eðlis og í lagfæringarskyni.

Undir þetta nefndarálit skrifa Helgi Hjörvar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Skúli Helgason, Guðlaugur Þór Þórðarson, með fyrirvara, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, Birkir Jón Jónsson, með fyrirvara, og Magnús M. Norðdahl.