140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, mér finnst ekki skrýtið að vinstri og hægri menn geti sameinast um þetta. Það á við um marga hluti að þeir fara ekki eftir grundvallarviðhorfum til hægri og vinstri. Mér finnst þetta bera þess órækan vott að nú hefur verið viðurkennt þvert á stjórnmálastefnur að besta form fyrirtækjareksturs sé hlutafélagaformið, (Gripið fram í.) enda sjáum við það á því að þessi öfl geta fallist í faðma yfir þessu.

Hitt er aftur á móti annað mál að ég geri engar athugasemdir við það rekstrarform sem hefur verið á sparisjóðum enda er alls ekki verið að útrýma því.

Hvað varðar það að vera með einn ríkisbanka og síðan sparisjóðakerfið við hliðina sem er stefna Sameiningar, (Gripið fram í: Samstöðu.) Samstöðu, já, þið verðið að fyrirgefa að ég hafi sagt Sameiningar — mér datt bara í hug sameining allra banka í einn — verð ég að segja að ég er allsendis ósammála því að það sé það besta fyrir okkur Íslendinga til framtíðar.