140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hefði mátt styðjast við niðurstöður sem við munum sjá úr þeirri vinnu. En ég þykist vita að meiningarmunurinn hjá mér og hv. þingmanni varði félagaformið á sparisjóðunum. Ég veit að hv. þingmaður er mikil samvinnumanneskja og er hrifin af sjálfseignarforminu eins og það hefur verið. En ég held að sú breyting að opna fyrir hlutafélög sé ekki hin stóra breyting. Ég held að stóra breytingin felist í því hvernig starfsleyfið er takmarkað. Við hv. þingmaður höfum bæði talað á þeim nótum hér um viðskiptabankastarfsemi að það sé óæskilegt að fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi sé blandað saman vegna þess að áhættan sem fylgir fjárfestingarbankastarfsemi á ekki að geta leitt inn í stofnanir þar sem tekin eru innlán. Við höfum reynsluna af því þegar áhættan rúllar í raun og veru yfir á skattgreiðendur og það viljum við ekki. Um það erum við hv. þingmaður sammála.

Vissulega eru þetta breytingar en ég lít ekki á þær sem endanlegar. Það þarf að lagfæra ýmsa hluti og ég held að þetta séu grundvallarbreytingar sem menn eru orðnir nokkuð sammála um. Ég tel því að það sé ekki ótímabært að fara út í þær núna en aftur á móti áskil ég mér rétt til þess að vilja frekari breytingar í framtíðinni.