140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir svarið. Ég er hins vegar ósammála honum um að þetta séu einhverjar grundvallarbreytingar frá fyrri stefnu. Að mínu mati er þetta einmitt framhald á þeim breytingum sem voru gerðar á lögum um sparisjóðina fyrir hrun. Ég vænti þess að eitt af því sem mun koma fram í væntanlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina verði að það sem hafi átt þátt í hruni sparisjóðanna eða verið einn af orsakavöldunum fyrir því hafi verið þegar opnað var fyrir það að breyta sparisjóðunum yfir í hlutafélög. Þess vegna hef ég verulegar áhyggjur af því að hér séu menn að halda áfram á sömu braut án þess að hafa nægilega góð gögn í höndunum um það hvað það var sem leiddi til hruns sparisjóðakerfisins.

Það hefur líka slegið mig í þeirri umræðu um sparisjóðina sem ég hef tekið þátt í á þessu kjörtímabili er hvað lítil þekking virðist vera hér á Íslandi um sögu sparisjóðanna, (Forseti hringir.) ekki bara hér á Íslandi heldur líka í nágrannalöndunum. Við erum því að taka mjög stórar og miklar ákvarðanir sem grundvallast á lítilli þekkingu og litlum upplýsingum.